144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

693. mál
[16:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í 1. umr. ætla ég ekki að hafa mjög mörg orð um málið, en eins og hér er fjallað um þá er þetta frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Þessi lög eru sett til að skapa lagaramma um þessar tvær áætlanir, byggðaáætlun og sóknaráætlanir, með breytingum á lögum um Byggðastofnun í leiðinni. Við fyrsta yfirlestur held ég að það sé til góðs að það skuli fest í lög hvernig skuli fara með þetta. Hér er meðal annars fjallað um sóknaráætlunina og sagt frá því að á síðastliðnu vori hafi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið falið ráðgjafarfyrirtækinu Evris sem óháðum aðila að meta framkvæmd sóknaráætlunar landshluta. Evris hafði skilað ráðuneytinu skýrslu í ágúst 2014 og unnið hratt og vel; skýrslan ber heitið Mat á framkvæmd sóknaráætlana. Helstu niðurstöður skýrslunnar voru eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Það er mat úttektaraðila að í heildina hafi verkefnið Sóknaráætlanir landshluta, á því tveggja ára tímabili sem til skoðunar var í þessari úttekt, tekist vel. Verkefnið er þróunarverkefni og þessi tvö ár voru mikilvægur tími til að prófa ný vinnubrögð og draga af þeim lærdóm áður en næstu skref verða stigin. […] Þá er það „mat úttektaraðila að samningar um framkvæmd sóknaráætlana hafi almennt verið mikið framfaraspor og vel til þess fallnir að færa aukin völd og ábyrgð til einstakra landshluta“. […] Í skýrslu Evris kemur jafnframt fram að sóknaráætlanir hafi aukið samráð og samstarf, jafnt innan Stjórnarráðsins sem og á milli stjórnsýslustiga, einfaldað verulega samskipti ríkis og sveitarfélaga og eflt stefnumótun og áætlanagerð landshlutasamtakanna. Reynsla ráðuneytanna, landshlutasamtaka sveitarfélaga og annarra sem koma að sóknaráætlanaverkefninu er mjög góð.“

Virðulegi forseti. Ég vildi nefna þetta hér vegna þess að mér finnst þetta mjög góð niðurstaða. Hún kemur mér ekki á óvart, en ég er einn af þeim sem tóku þátt í því á síðasta kjörtímabili að búa til sóknaráætlanir landshluta sem áttu þó svolítið undir högg að sækja á þinginu, ekki höfðu allir trú á því formi sem þar var. En í þessari skýrslu er hin besta umsögn um sóknaráætlanir landshluta þau tvö ár sem voru keyrð þarna og voru tekin til skoðunar.

Þetta ættu ýmsir núverandi stjórnarliðar að lesa vel og hafa í huga vegna þess að ekki voru allir sáttir við þessa leið. En hér er sem sagt lagt til að setja verklag við stefnumótanir og áætlanagerð þar sem á að tryggja aðkomu heimamanna að þeirri vinnu og auka ábyrgð þeirra og forgangsröðun verkefna, að binda þetta í lög. Ég held að það sé til góðs, virðulegi forseti, að setja þetta hér inn.

En ég get ekki látið hjá líða að segja í lokin, vegna þess að eitt er að búa til frumvarp og annað að gera það að lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, sem ég efast ekki um að við getum gert við frekari vinnu í atvinnuveganefnd: Ég hef alltaf fyrirvara á frumvörpum af þessu tagi um frekari vinnu og um það sem kemur fram í umsögnum við vinnu nefndarinnar en ég get ekki látið hjá líða að nefna að það sem er að, hvað þetta mál varðar, í dag er að ríkisstjórnin veitir ekki nægt fé í verkefnið. Það urðum við áþreifanlega vör við nú í vetur, getum við sagt, bæði fyrir og eftir áramót, þar sem mikil togstreita var milli aðila við einstök ráðuneyti sem eingöngu sneri að því að fjárveitingar eru ekki nægar. Með öðrum orðum, ef ég man rétt, var frumvarp til fjárlaga, þegar það kom fyrst fram, 15 milljónir en svo var 85 milljónum bætt við og það fór í 100 milljónir. Það er engan veginn nægjanlegt. Það er ekki nægjanlegt, miðað við það sem var hér áður fyrr, þegar fjárlaganefnd var að deila út ýmsum fjármunum, stofnkostnaðarstyrkjum, til menningarsamninga o.s.frv., og allt var þetta tekið inn í þessa áætlun, að það vantar bara miklu meira fé inn í þetta. Það er það sem helst er að í þessu sambandi.

Virðulegi forseti. Ég vildi geta um þetta hér vegna þess að ég tel að stjórnarmeirihlutinn verði að koma með meiri fjárveitingar við næstu fjárlagagerð inn í þennan málaflokk, annars heldur þetta áfram í þessari togstreitu og jafnvel í niðurskurði sem ég held að sé ekki til góðs. Þetta vildi ég segja hér við 1. umr.