144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

693. mál
[16:16]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla bara að koma hingað upp til að fagna því að við séum komin á þennan stað með þetta ágæta verkefni sem þó fór ekki endilega jafn jákvætt af stað og menn vilja meina. Eins og með öll verkefni og miklar umbreytingar, þar sem verið er að breyta, þá er oft mikil fyrirstaða. Ég man að okkur sem sátum í sveitarstjórnum óaði við þessu verkefni, fannst þetta mikil breyting og það var ekki tóm sæla með það í upphafi. En svo fórum við að vinna áfram og átta okkur á þessu. Það voru til dæmis hnökrar í upphafi með alla samráðsfundina. Það kostar að halda fundi, það eru miklar vegalengdir sem þurfti til að koma öllum saman til að fá víðtækt samráð; það kostar okkur að búa í þessu víðfeðma og stóra landi og við þurfum alltaf að reikna með því. Þess vegna var, sem betur fer, fundin leið til að mæta því að einhverju leyti og sett sérframlag í það. En þetta er eins og með margt annað, það þarf að skoða þetta frá öllum hliðum.

Hér erum við að lögfesta fyrirkomulag og tryggja samvinnu og vinnufyrirkomulag sem hefur verið að festast í sessi og verið jákvætt að finna það. Það er verið að vinna þverfaglega á ráðuneyti sem ég held að sé afskaplega mikilvægt. Með þeim hætti er hægt að fjölga verkefnum út um landið og færa ákvarðanatökuna meira til landshlutanna og til fólksins út um landið. Það var til dæmis gaman að fá að taka þátt í því með stofnun Austurbrúar á Austurlandi þegar Austfirðingar tóku sig saman og sameinuðu stoðstofnanir. Það má alveg segja að það hafi verið í tengslum við þetta til að einfalda kerfið, einfalda aðkomuna, hvernig eigi að finna verkefnum farveg og vinna áfram með þau. Með því að lögfesta þetta verður auðveldara fyrir einstök ráðuneyti að nota þessa leið og þessar áætlanir sem farveg fyrir ýmis smærri framlög til landshlutanna eða aðila innan þeirra. Í hverjum landshluta er fólk með sérþekkingu á öllum þeim sviðum sem verið er að vinna að og það er mikilvægt að hlúa að henni og virkja það og nýta þá krafta heima í héruðunum og færa ákvarðanatökuna meira þangað.

Ég held að það sé mjög jákvætt að þetta skuli vera komið á þennan stað. Það hefur gengið á ýmsu í framkvæmdinni, en það er heldur ekkert óeðlilegt, þegar verið er að breyta vinnulagi og verklagi, að við þurfum að ætla okkur tíma í það til að menn sættist á hlutina, tileinki sér þá og vinni með þá. Það er þannig í öllum breytingum.

En ég fagna því meginmarkmiði sem kemur fram í þessum lögum, sem er að efla byggðaþróun á landinu öllu. Það er okkur öllum mjög mikilvægt að landið okkar sé allt sterkt og að við vinnum saman. Ég held að þetta sé ágætisliður í því og ég hlakka til að fá að vinna með þetta áfram í hv. atvinnuveganefnd.