144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

361. mál
[17:29]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að Reykjavíkurflugvöllur er ekki einkamál Reykvíkinga. Þessi flugvöllur í Reykjavík er fyrst og fremst flugvöllur allra landsmanna og tenging landsbyggðarinnar við Reykjavík, höfuðborg okkar, og ekki síst tenging við mikilvægar stofnanir eins og Landspítalann, stjórnsýsluna og margt annað.

Áður en ég held lengra vil ég koma aðeins inn á það sem hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson talaði talsvert um í ræðu sinni, þ.e. skipulagsvald ríkis og sveitarfélaga. Það má alls ekki gera lítið úr því að skipulagsvald sveitarfélaga er mjög mikilvægt. Eins og hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson kom inn á þá er það ríkið sem setur því mörk og þegar við erum að tala um jafn þjóðhagslega mikilvæga tengingu og Reykjavíkurflugvöllur er þá held ég að það sé rétt að kjörnir landsfulltrúar fari með málefni þess flugvallar rétt eins og Keflavíkurflugvallar.

Í frumvarpinu stendur að ekki verði fýsilegt að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og ég held að eins og staðan er í dag, þegar við erum ekki með hraðvirkari samgöngur á milli Keflavíkur og Reykjavíkur, sé það alveg rétt að í náinni framtíð — og ég tel talsvert lengra en til ársins 2022 — verði Reykjavíkurflugvöllur að vera í einhvers konar mynd hér í Reykjavík. Þá dreg ég kannski upp gamla hugmynd frá einum kennara mínum í skipulagsfræðum í háskólanum, um að flugvöllurinn gæti verið á Lönguskerjum og sé þá á landfyllingu úti í sjó eins og er víða í stórborgum sem liggja að sjó erlendis. Ég ætla ekki að selja það dýrar en ég keypti það en einn góður vinur minn sagðist vera búinn að reikna þetta út og hagkvæmara væri að selja allar lóðir í Vatnsmýrinni og byggja flugvöllinn á Lönguskerjum á landfyllingu, og ættum við þá samt talsverða peninga eftir, jafnvel svo mikið að við gætum átt í nýja byggingu við Landspítalann; en þetta var svona útúrdúr.

Ég sé ekki fyrir mér að Reykjavíkurflugvöllur verði annars staðar en í Reykjavík, alla vega næstu 10, 20, 30 árin því að þar til lest, hraðlest, eða annar samgöngumáti gerir að verkum að við komumst hratt og örugglega milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar verður Keflavík ekki raunhæfur kostur. Ég tel að það sé ekki hægt að klippa þetta af án þess að neitt annað komi í staðinn.

Að því sögðu vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að í náinni framtíð, eftir ákveðinn árafjölda, verði Keflavíkurflugvöllur miðstöð innanlandsflugs nema þá jafnvel að við getum eflt fleiri gáttir inn í landið. Í mjög stórum borgum, t.d. í Stokkhólmi, eru meira en 40 mínútur frá flugvelli og niður í miðbæ. Það er þannig séð ekkert óeðlilegt að það taki lengri tíma en mér finnst óeðlilegt að kippa flugvellinum burt úr Vatnsmýrinni án þess að neitt annað komi í staðinn.

Ég tek undir með hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni að við þurfum að koma þessu í góðan farveg. Þetta hefur verið ágreiningsmál og deilumál í svolítinn tíma og hefur verið í meðförum margra samgönguráðherra. Ég tel að með þessari tillögu, nái hún fram að ganga, séum við að ná því markmiði að koma á ákveðinni sátt í flugsamgöngum, sátt milli höfuðborgar og landsbyggðar, og að koma málinu í farveg sem mundi duga í ákveðinn tíma þar til eitthvað annað og betra kemur í staðinn.

Að því sögðu fagna ég því að þetta mál hafi nú loksins komist á dagskrá og fagna því einnig að fá að takast á við frumvarpið í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt frekar.