144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

361. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem tóku til máls í þessari umræðu. Ég ætla ekki að lengja hana mikið en ég vildi bara koma nokkrum atriðum að.

Við í umhverfis- og samgöngunefnd, ef málið gengur til hennar, munum að sjálfsögðu reyna að afgreiða þetta mál hratt og örugglega en málið er lagt fram til að tryggja að fulltrúar allra landsmanna fái að taka ákvörðun um endanlega staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Það er það sem skiptir öllu máli í þessu stóra samhengi.

Ég held að vert sé að rifja það upp að það voru Bretar sem byggðu upp Reykjavíkurflugvöll á sínum tíma, í seinni heimsstyrjöldinni. Það voru Bretar sem gáfu íslensku þjóðinni flugvöllinn og það var Ólafur Thors, þáverandi forsætis- og fjármálaráðherra, ef ég man rétt, sem tók við Reykjavíkurflugvelli fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Mér finnst það vera til merkis um að þetta sé samgöngumannvirki allrar þjóðarinnar. Ástæðan fyrir því að við Ásmundur, Haraldur og fleiri erum að berjast fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur …

(Forseti (KLM): Forseti vill minna á að það ber að ávarpa alla þingmenn með fullu nafni.)

— hv. þm. Ásmundur Einar Daðason og hv. þm. Haraldur Einarsson, ég vitnaði í þeirra góðu orð. Ástæðan fyrir því að við erum að berjast fyrir flugvellinum er sú að landsbyggðin þarf á höfuðborginni sinni að halda. Landsbyggðin þarf á því að halda að öflugt aðgengi sé að sjúkrahúsinu og líka að háskólanum, að öflugt aðgengi sé að öllum þeim stjórnsýslustofnunum sem þar eru staddar, að það sé öflugt aðgengi að Alþingi og að allri þeirri menningu og öllu því góða sem Reykjavíkurborg hefur upp á að bjóða.

Það er svolítið ankannalegt að þeir sem eru úti á landi þurfi að standa í stappi fyrir því einu að geta komist á sem hagkvæmastan og bestan hátt inn í miðborgina sína, inn í höfuðborg sína, vegna þess að Reykjavík er jú höfuðborg allra landsmanna. Landið okkar er nú einu sinni þannig að miðpunkturinn er hér, hann er í Vatnsmýrinni, hann er hér við Tjörnina, hann er hér við Austurvöll og þetta svæði á að vera svæði allra landsmanna, ekki bara höfuðborgarbúa.

Að því loknu vonast ég til að fleiri þingmenn úr öllum flokkum, landsbyggðarþingmenn, höfuðborgarþingmenn, hvaðan sem þeir koma, lesi frumvarpið vel, setji sig vel inn í þá stöðu sem komin er upp, átti sig á þeim veruleika að fulltrúar Reykjavíkurborgar hafa ákveðið að Reykjavíkurflugvöllur eigi að fara, það eigi sér stað bæði í aðal- og deiliskipulagi Reykjavíkurborgar, og þetta sé besta ráðið til að koma þessu mikilvæga máli í réttan farveg.