144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

skilgreining auðlinda.

184. mál
[19:06]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, fyrir að fara vel yfir ástæður framlagningar þessarar þingsályktunartillögu. Ég ákvað að vera meðflutningsmaður á henni þar sem ég taldi mjög tímabært að fram kæmi skýr skilgreining á auðlindum sem færi inn í lög. Eins og kemur fram í I. kafla greinargerðarinnar er eitt af því sem stuðlar að ábyrgri umhverfishegðun að líta svo á að náttúruauðlindir og réttur til þess að nýta þær hafi verðgildi þótt kannski sé erfitt að meta slíkt til fjár. En á móti getur það verið okkur mjög dýrkeypt ef við viljum ekki leggja verðmiða á þær. Hér er talið upp hvað kynnu að vera auðlindir í þjóðareign og það eru öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum og afréttum og óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orka í rennandi vatn og jarðhiti, og ég tel mjög nauðsynlegt miðað við umræðuna í gær um starfsemi óbyggðanefndar að hún ljúki vinnu sinni sem fyrst til þess að það sé skýrt skilgreint hvar línurnar á auðlindunum liggja.

Eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á þá eru 15 ár liðin frá því að skýrsla auðlindanefndar kom út. Síðan þá hafa gefist tilefni til þess að ljúka þeirri vinnu bæði vegna ásóknar í auðlindirnar og það er líka mikilvægt vegna ágreinings um það hvort þeir sem nýta auðlindirnar eigi að borga og hvað þeir eigi að borga, hvort þeir séu að nýta auðlind í þjóðareign o.s.frv. Ég er mjög ánægð hversu vel sjálfbær nýting á auðlindunum er útlistuð í þingsályktunartillögunni. Það er gott að þetta sé skýrt og einnig það að gróði sem verður til af auðlindum sé nýttur til þess að viðhalda þeim svo að við séum ekki að ganga á þær.

Mig langar einnig að benda á VI. hluta greinargerðarinnar þar sem fjallað er um leiðir til auðlindastjórnar. Aðferðir við auðlindastjórn eru í fjórum þáttum; eignarréttarskipan, leiðréttandi gjöld og uppbætur eða svokallaðir grænir skattar, magntakmarkanir og tæknileg skilyrði. Ég tel þriðja liðinn, magntakmarkanir, oft gleymast í þessari umræðu, en við auðlindastjórn eru tvær fyrstu aðferðirnar kannski hagfræðilega skilvirkastar. Við höfum samt verið að tala meira um gjaldtöku og stýringu, en ég vil benda á í þessu samhengi að við verðum að skoða gjaldtökuna í samhengi við dreifingu á auðlindirnar. Ég held að ef þessi þingsályktunartillaga nær fram að ganga geti hún auðveldað okkur frekari vinnu við gjaldtöku vegna náttúru Íslands.