144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

mjólkurfræði.

336. mál
[19:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur og segja að ég held að þetta sé gríðarlega jákvætt mál. Í tengslum við það langar mig að segja nokkur orð um menntun í matvælaframleiðslu, landbúnaði og í skyldum greinum. Um leið ég tek undir þær áhyggjur sem hún lýsti hér að enginn nemandi hefði farið til náms í mjólkurfræði síðustu þrjú ár. Sá samningur sem hefur verið í gildi við Danina er þannig að lítill hvati er í því að Íslendingar fari þangað til náms. Því held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld og sérstaklega þá mennta- og menningarmálaráðherra og allsherjar- og menntamálanefnd þingsins skoði það hvort við þurfum ekki að stórefla menntun almennt í matvælaframleiðslu, öllu sem tengist matvælaframleiðslugreinunum. Við erum með slátrara, kjötvinnslumenn og fleiri skyldar greinar. Ég er einn þeirra sem deila skoðunum með mörgum hér og þvert á flokka sem trúa því að íslensk matvælaframleiðsla eigi eftir að stóraukast á 21. öldinni og næstu áratugum, hún eigi eftir að stóraukast og gríðarleg sóknarfæri séu til útflutnings á íslenskum matvælum.

Þetta erum við að byrja að sjá, stóraukinn vaxandi áhuga á íslenskum matvælum. Menn eru farnir að horfa til nýrra markaða eins og Asíu, Rússlands og víðar fyrir kjöt og fisk, með mjólkurafurðir, lambakjöt og fleiri vörur, mikil sóknarfæri eru þar. Og ef við horfum bara á það hvernig mannfjöldaþróunin er að verða í heiminum, heimsbúum fjölgar um tæpa íslenska þjóð á hverjum einasta degi. Á sama tíma eru grunnvatnsbirgðir heimsins að minnka mjög og vatnsbúskapur heimsins fer mjög dvínandi. Við sjáum fréttir oftar og oftar af þurrkum, skógareldum og uppskerubresti víða á suðrænum slóðum. Allt bendir þetta til þess að samkeppnisstaða Íslands til að framleiða hágæðamatvæli sé góð vegna þess að Ísland býr við þær aðstæður að hér er eitt hreinasta loft í heimi, hér er hreinasta vatn í heimi og við eigum gríðarleg sóknarfæri til að stórauka okkar matvælaframleiðslu og þá með útflutning í huga. Til að það geti orðið verðum við að stórefla menntun á sviði landbúnaðar þannig að þeir sem þar klári nám séu tilbúnir til að takast á við þau krefjandi verkefni og þær breytingar sem á þarf að halda til að landbúnaðurinn geti vaxið og dafnað og aukist hér á landi og orðið öflug útflutningsgrein rétt eins og sjávarútvegurinn. Við þurfum líka, alveg eins og kemur fram í frumvarpinu og var lýst svo vel hjá hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, að efla menntun í úrvinnslugreinunum, mjólkurfræði, kjötvinnslu og markaðssetningu, eins og hv. þingmaður kom inn á. Allt tengist þetta saman og á þeim tveimur sviðum þurfum við aldeilis að taka til hendinni ef við ætlum að hasla okkur völl á þessu sviði sem matvælaland. Margir tala núna um og það hefur svo sem verið í umræðunni að hugsanlega geti sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn farið saman og markaðssett sig sem matvæli frá norðurslóðum, „arctic food“ eða eitthvað slíkt. Og ef menn ætla í þetta verða þeir að horfa til framtíðar, sérstaklega í landbúnaðinum, vegna þess að sjávarútvegurinn er kominn talsvert fram úr okkur í þessu. Þar sjáum við öflugustu fyrirtæki landsins einmitt á sviði úrvinnslu fisks, Marel, 3X, Skaginn og fleiri fyrirtæki þar sem til eru að verða hátæknistörf og útflutningsstörf einmitt vegna þessarar matvælavinnslu.

Ég hvet nefndina sem fær málið til að skoða það hvort ekki sé ástæða til að fara líka svolítið víðar í umræðunni og sjá hvort við þurfum ekki að stórefla alla menntun sem snýr að úrvinnslu, markaðssetningu, þróun, tækni og öðru í matvælavinnslu. Mjólkurfræðin er svo sannarlega mjög mikilvæg sem hluti af því. Eins og hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir kom inn á er það auðvitað áhyggjuefni að fólk skuli ekki nægilega mikið sækja sér þessa menntun.

Á sama tíma, og ég ætla ekki að gera lítið úr því, útskrifast hundruð lögfræðinga úr lögfræði á hverju einasta ári, viðskiptafræðingar o.fl. Allt eru þetta mikilvæg störf hjá einni þjóð en við eigum sóknarfæri í matvælaframleiðslunni og við þurfum að sjá fleira fólk mennta sig á því sviði. Mér finnst ekkert athugavert við það að stjórnvöld reyni að beita sér fyrir því að fleiri fari inn á þá braut og mennti sig á því sviði, mjólkurfræði í þessu tilfelli, vegna þess að til lengri tíma litið er það gríðarlega þjóðhagslega mikilvægt.

Ísland á mikið af vannýttu landi. Ísland á mikið vatn, á Íslandi eru góðar aðstæður fyrir framleiðslu á hágæðamatvælum, en til þess þurfum við að hlúa vel að þeim sem starfa við þá grein, úrvinnslu og annað því um líkt. Þessi tillaga hv. þingmanns miðar að því. Ég vil óska þingmanninum til hamingju með hana.