144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara.

647. mál
[19:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir gríðarlega gott samstarf þessara tveggja flokka, Bjartrar framtíðar og Pírata, í þessu máli. Aðstoðarmenn þingflokkanna eiga svo sannarlega mikið í þessum betrumbótum á frumvarpinu, leyfi ég mér að segja, sem þó var gott fyrir. Ég held að það hljóti að verða eitt af forgangsmálum Pírata og Bjartrar framtíðar að frumvarpið verði afgreitt á þessu þingi. Það er gríðarlega brýnt að heildstæð löggjöf fyrir uppljóstrara taki gildi og ég vona að aðrir þingmenn láti sig þetta mál varða.

Ég ætla að halda áfram lestrinum upp úr greinargerð sem er mjög gagnleg og fróðleg fyrir þá sem vilja kynna sér þessi mál ítarlega. Ég tek þá upp þráðinn þar sem hv. þm. Róbert Marshall skildi við hann:

„Mannréttindadómstóll Evrópu hefur jafnframt fjallað um tjáningarfrelsi uppljóstrara, bæði sem starfsmanna og út frá heimildarvernd fjölmiðla. Í máli Tillack gegn Belgíu frá 27. febrúar 2008 var kærandi blaðamaður sem ritaði og birti greinar sem byggðar voru á trúnaðargögnum sem fengin voru frá Evrópuskrifstofu ESB um aðgerðir gegn fjársvikum (OLAF). Evrópuskrifstofan grunaði blaðamanninn um að hafa mútað opinberum starfsmanni til að afhenda sér gögnin sem greinarnar byggðust á og hóf rannsókn á lekanum. Þegar sú rannsókn reyndist árangurslaus kærði Evrópuskrifstofan blaðamanninn til yfirvalda sem hófu rannsókn á lekanum og meintum mútum til opinbers starfsmanns. Í kjölfarið voru framkvæmdar húsleitir hjá blaðamanninum á heimili hans og skrifstofu og hald lagt á ýmis gögn. Aðgerðirnar gegn blaðamanninum voru af Mannréttindadómstólnum álitnar vera brot á tjáningarfrelsi hans samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í máli Guja gegn Moldavíu frá 12. febrúar 2008 var kærandi starfsmaður ákæruvaldsins. Hann sendi dagblaði afrit af bréfi þingforseta til ákæruvaldsins, sem fjallaði um mál lögreglumanna sem sakaðir voru um harðræði í starfi, en þeir höfðu óskað eftir því við þingforseta að ekki yrði gefin út ákæra í máli þeirra. Í bréfinu hafði þingforseti m.a. spurt saksóknara hvort hann stæði í baráttu gegn glæpum eða lögreglunni sjálfri. Í kjölfarið birti dagblaðið umfjöllun um tilraunir þingforseta til að hafa áhrif á störf saksóknara og meðferð málsins, en kæranda var sagt upp störfum. Fyrir MDE hélt kærandi því fram að uppsögnin væri brot gegn 10. gr. mannréttindasáttmálans. Dómstóllinn leit einkum til þess hvort takmörkunin á tjáningarfrelsi kæranda hefði verið nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi, en ljóst var að mælt var fyrir um hana í lögum og stefndi að lögmætu markmiði, þ.e. að koma í veg fyrir dreifingu trúnaðargagna.

Dómstóllinn lagði áherslu á að starfsmaður færi með trúnaðarskyldu gagnvart vinnuveitanda, en starfs síns vegna kynni opinber starfsmaður að komast að upplýsingum í starfi sínu sem ættu erindi til almennings. Við mat á nauðsyn takmörkunarinnar taldi dómstóllinn að líta þyrfti til ákveðinna atriða. Í fyrsta lagi þyrfti að líta til þess hvort uppljóstrari hefði getað komið upplýsingum á framfæri á annan hátt, t.d. með því að leita fyrst til yfirmanna sinna. Að koma upplýsingum á framfæri til fjölmiðla ætti að vera neyðarúrræði ef óraunhæft væri að leita til yfirmanna eða annarra viðeigandi aðila. Í öðru lagi leit dómstóllinn til þess hvort ljóstrað væri upp einhverju í þágu almannahagsmuna. Í þriðja lagi skipti máli hvort upplýsingarnar sem ljóstrað er upp væru áreiðanlegar. Í fjórða lagi þyrfti að líta til þess hvert tjón vinnuveitanda væri af uppljóstrun. Í fimmta lagi kæmi til skoðunar hver hvöt uppljóstrara væri, þ.e. hvort hann ljóstraði upp upplýsingum í góðri trú. Í síðasta lagi þyrfti að meta hversu alvarlega starfsmaður er látinn gjalda þess að ljóstra upp um mál.

Dómstóllinn beitti sömu aðferð í máli Heinisch gegn Þýskalandi frá 21. júlí 2011, en í því máli var kærandi hjúkrunarfræðingur sem starfaði hjá fyrirtæki við umönnun aldraðra. Fyrirtækið var í eigu hins opinbera. Kærandi kom ítrekað á framfæri athugasemdum við framkvæmdastjórn fyrirtækisins um vankanta í umönnun sjúklinga, m.a. með aðstoð lögmanns. Fyrirtækið hafnaði ásökunum kæranda, og með aðstoð lögmanns lagði hún þá fram kæru til lögreglu á hendur fyrirtækinu vegna fjársvika, þ.e. þar sem það veitti ekki þjónustu í samræmi við kynningu þess út á við. Þegar fyrirtækinu varð kunnugt um kæruna brást það við með brottrekstri kæranda.

Í máli Guja gegn Moldavíu leit dómstóllinn einkum til þess að reglur um hvernig tilkynna bæri misgerð skorti, auk þess sem yfirmaður kæranda sýndi ekki merki um að vilja aðhafast vegna bréfs þingforseta. Því var réttlætanlegt að fara með upplýsingarnar til fjölmiðla. Dómstóllinn lagði auk þess áherslu á hagsmuni almennings af uppljóstruninni, en mikilvægt væri að ákæruvaldið nyti sjálfstæðis í lýðræðislegu samfélagi, án pólitískra áhrifa. Hagsmunir almennings vógu því þyngra en hagsmunir ákæruvaldsins af að viðhalda trausti í samfélaginu gagnvart stofnuninni. Þá benti dómstóllinn m.a. á að uppsögn kæranda gæti haft alvarleg kælingaráhrif í för með sér. Í máli Heinisch gegn Þýskalandi var ljóst að kærandi hafði margoft reynt að ná eyrum yfirmanna sinna, án árangurs. Því var réttlætanlegt að tilkynna málið til lögreglu. Þá taldi dómstóllinn að hagsmunir almennings af að fá upplýsingar um aðbúnað sjúklinga hjá fyrirtæki í eigu hins opinbera hafi vegið þyngra en viðskiptalegir hagsmunir fyrirtækisins og orðspor þess. Í báðum framangreindum málum komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða brot gegn tjáningarfrelsi kærenda samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmálans, þ.e. að takmörkunin hefði ekki verið nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi.“

Við förum síðan yfir það hvernig þessum málum er háttað í löndunum í kringum okkur. Ég veit ekki hvort tíminn leyfir mér að fara yfir öll löndin, en ég ætla að fara yfir það hvernig staðan er á Íslandi, en ég hvet þá sem áhuga hafa á þessum málum að lesa greinargerðina í heild sinni þar sem farið er yfir stöðuna í Noregi, Bretlandi, Bandaríkjunum og svo Íslandi

„Þó að áður hafi verið lögð fram mál þar sem reynt var að tryggja réttarstöðu uppljóstrara, eins og mál Bryndísar Hlöðversdóttur frá 130. löggjafarþingi um breytingu á ýmsum lögum til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra og til verndar starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla (þskj. 41, 41. mál), hefur enginn sérstakur reki verið gerður að því á Íslandi að setja heildarlög til verndar uppljóstrurum fyrr en nú.

Lagaleg vernd uppljóstrara samkvæmt íslenskum lögum lýtur aðallega að þeim sem njóta verndar sem heimildarmenn fjölmiðlamanna en fjölmiðlamönnum er ekki skylt að greina frá nöfnum heimildarmanna sinna. Ákvæði er snúa að heimildarvernd fjölmiðlamanna er að finna í 25. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, auk reglna um vitnaskyldu sem finna má í lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Meginreglan er sú að öllum sem til þess eru kvaddir er skylt að bera vitni fyrir dómi. Í 53. gr. laga um meðferð einkamála og 119. gr. laga um meðferð sakamála er hins vegar að finna undanþágur frá meginreglunni. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð einkamála er vitni, t.d. fjölmiðlamanni, óheimilt að greina frá því hver sé heimildarmaður, nema sá sem í hlut á veiti honum leyfi til þess. Sambærilegt ákvæði er að finna í a-lið 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála, þótt vernd heimildarmanna sæti ákveðnum takmörkunum að því er varðar meðferð sakamála fyrir dómi. Af 3. mgr. 119. gr. má ráða að telji dómari að vitnisburður geti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls getur hann ákveðið að vitni svari tilteknum spurningum, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., enda séu hagsmunir af því að spurningunum sé svarað ríkari en af því að trúnaði verði haldið. Í lögum um meðferð sakamála má jafnframt finna fyrirvara við beitingu þvingunarúrræða gagnvart mönnum sem reglur um undanþágu frá vitnaskyldu geta átt við um. Rannsóknaraðilar geta því ekki upplýst um hver sé uppljóstrari og þar með heimildarmaður að tiltekinni frétt í fjölmiðlum með því að t.d. leggja hald á gögn sem hafa að geyma upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála tekur til, samanber 68. gr. sömu laga. Af framangreindu má ráða að uppljóstrarar njóta ekki sambærilegrar verndar, hvorki á eigin vinnustað né heimili, séu þeir ekki blaðamenn og vinnustaður þeirra ekki fjölmiðill.

Varðandi vernd uppljóstrara í íslenskum rétti mætti einnig líta til 13. gr. a laga nr. 70/ 1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar segir að óheimilt sé að láta starfsmann gjalda þess að hann greini viðeigandi aðilum frá lögbrotum eða brotum á siðareglum sem hann hefur orðið áskynja um í starfi. Í lögskýringargögnum kemur fram að með „viðeigandi aðili“ sé átt við næsta yfirmann í ráðuneyti eða ríkisstofnun sem ekki er sjálfur viðriðinn mál. Einnig gæti umboðsmaður Alþingis fallið undir hugtakið eða eftir atvikum önnur embætti sem hafa eftirlit með stjórnsýslunni. Enn hefur ekki reynt á ákvæðið fyrir íslenskum dómstólum. Umboðsmaður Alþingis hefur hins vegar fjallað um aukna áherslu á gagnsæi í opinberri stjórnsýslu, bæði hér á landi og erlendis, og stöðu opinberra starfsmanna að því leyti. Í áliti umboðsmanns Alþingis vegna frumkvæðisathugunar á samskiptum innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu (mál nr. 8122/2014) segir: „Athugun mín á þessu máli og viðbrögð innanríkisráðherra við aðkomu umboðsmanns Alþingis að því fram að bréfi fyrrverandi innanríkisráðherra til mín, dags. 8. janúar 2015, eru mér tilefni til þess að minna á að á síðustu árum hefur verið lögð aukin áhersla á gagnsæi í opinberri stjórnsýslu, bæði hér á landi og erlendis. Hvatt hefur verið til þess að opinberir starfsmenn sem telja sig hafa vitneskju um lögbrot eða annað sem hefur ekki verið í samræmi við reglur og vandaða starfshætti í stjórnsýslunni upplýsi hlutaðeigandi eftirlitsaðila um slíkt. Sérstaklega hefur verið rætt um hvort setja eigi í lög eða tryggja slíkum aðilum með öðrum hætti vernd gegn því að koma slíkum upplýsingum á framfæri við lögbæra aðila án þess að það verði síðar látið bitna á þeim. Í opinberri stjórnsýslu hefur í þessu sambandi verið vísað til þess að þessum starfsmönnum sem og öðrum standi sá möguleiki til boða að leita til umboðsmanna þjóðþinga þar sem þeir eru starfandi og það sé þá umboðsmannanna að meta hvernig bregðast eigi við slíkum ábendingum. Mikilvægur þáttur í því að traust ríki um þessa leið er að fyrirsvarsmenn viðkomandi stjórnvalds láti t.d. þann starfsmann eða aðila máls hjá stjórnvaldinu ekki gjalda fyrir það að hafa veitt eftirlitsaðila slíkar upplýsingar.

Eins og hér hefur verið rakið er þörf á að íslensk lög verði færð til samræmis við þær alþjóðlegu áherslur sem lagðar eru á aukna vernd uppljóstrara. Með frumvarpi þessu er ætlunin að bregðast við þeirri þörf og lagt til að lögfest verði lagaákvæði sem kveða á um vernd uppljóstrara.“

Mig langar að fara snöggt yfir markmið frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að:

a. stuðla að miðlun upplýsinga um misgerð eða koma í veg fyrir misgerð,

b. tryggja vernd uppljóstrara og tengdra aðila,

c. stuðla að aðgengi að upplýsingum sem varða almannahagsmuni og eiga erindi til almennings.“

Lögunum er ætlað að virka þannig að þegar uppljóstrari afhjúpar upplýsingar um misgjörð á borð við spillingu og aðra ólögmæta háttsemi þá nýtur hann tiltekinnar verndar sem hann getur þurft á að halda. Ef miðlun þessara upplýsinga brýtur gegn trúnaðar- eða þagnarskyldu ákvæðum laga kveða þessi lög á um að falla skuli frá saksókn gegn uppljóstrara nema því aðeins að ríkir almannahagsmunir krefjist málshöfðunar. Í öðru lagi verði óheimilt að höfða einkamál gegn uppljóstrara vegna uppljóstrunar. Í þriðja lagi yrði óheimilt að krefja uppljóstrara, eða þann sem aðstoðar við uppljóstrun, um skaðabætur vegna uppljóstrunarinnar. Í fjórða lagi yrði óheimilt að láta uppljóstrara og aðila tengda honum gjalda þess ef hann miðlar upplýsingum með því að segja upp, rifta eða að ljúka með öðrum hætti annars gildum ráðningarsamningi við hann eða með því að rýra starfskjör hans á annan hátt. Í fimmta lagi yrði óheimilt að láta uppljóstrara eða aðra aðila tengda honum gjalda þess ef hann miðlar upplýsingum með því að grípa til skaðlegra aðgerða á borð við mismunun, ofsóknir, áreiti, ærumeiðingar eða opinbera nafngreiningu uppljóstrara án hans samþykkis, eða annarra slíkra aðgerða sem framdar eru í hefndarskyni fyrir miðlun upplýsinga. Þá skal uppljóstrari í sjötta lagi eiga rétt til skaðabóta úr hendi þess sem veldur honum fjárhagslegu tjóni og miska vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi, athafnar eða athafnaleysis sem beint er að uppljóstrara vegna miðlunar upplýsinga samkvæmt II. kafla frumvarpsins.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum á því að minnast Chelsea Manning, hún er ef til vill sá nútímauppljóstrari sem hefur haft hvað mest áhrif á umræðuna um þörf á lögum um uppljóstrara og vernd. Ég vil jafnframt óska eftir því að þetta mál verði tekið til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd og fái þar umfjöllun. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá lítum við svo á að þetta sé forgangsmál og óskum eftir því að þetta hljóti afgreiðslu á þessu þingi.