144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan í kjaradeilum.

[15:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær og í dag höfum við verið að fá fregnir af því hvaða afleiðingar verkfallsaðgerðir hafa á ýmsar stofnanir landsins og samfélagið í heild. Í gær greindu ljósmæður frá því að ríkisvaldið hefði í á fimmtu viku ekki sýnt neina viðleitni til þess að mæta kröfum þeirra og þessi hópur er látinn standa ásamt félögum sínum og öðrum hópum í BHM í verkfallsaðgerðum án þess að talað sé við þá svo dögum skipti. Þetta vekur mér gríðarlegan ugg og mér finnst staðan í kjaramálunum í dag vera þannig að stefnir í mjög mikið óefni og mér finnst menn ekki sýna neina forustu í því að koma til móts við þessa hópa og laga stöðuna.

Ríkið er ekki bara beinn viðmælandi hópa eins og BHM t.d. um launin sjálf, kaup og kjör, heldur getur ríkið líka með svo mörgum hætti komið til móts við þá og bætt lífskjör þeirra með óbeinum aðgerðum. Til dæmis er ein krafa BHM sú að endurgreiðslubyrði námslána verði lækkuð. Það eru líka gerðar kröfur um að ódýrara verði að koma sér upp þaki yfir höfuðið og lífskjör er hægt að bæta með svo mörgum öðrum hætti. Það er kallað eftir slíkum aðgerðum samhliða hækkun launa.

Nú eru þrjár vikur eftir af þessu þingi til þess að bregðast við þessum kröfum en ekkert slíkt er á borðunum. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki sé til skoðunar hjá honum og ríkisstjórninni að svara kröfum um óbeinar aðgerðir til þess að bæta lífskjör þessara hópa og við getum þá nýtt tímann sem er til loka þingsins til þess að klára slík mál.