144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

notkun úreltra lyfja.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Það er ekki á borði fjármálaráðherrans að taka ákvörðun um hvaða lyf eru á innkaupalistanum sem S-merkt lyf, en það er hins vegar sjálfsagt að gera grein fyrir því að það hefur lengi verið vandi hvað varðar S-merktu lyfin að sjúkrahúsin hafa farið fram úr fjárheimildum. Hér segir hv. þingmaður að menn muni halda fjárlög á þessu ári vegna þess að ekki verði ný lyf tekin inn. Þá segi ég: Nei, menn munu halda fjárlög á þessu ári varðandi þennan lið vegna þess að menn eiga að halda fjárlög á hverju einasta ári varðandi slíka liði. Það er ástæðan.

Ef verið er að bera undir mig þá spurningu hvort ég vilji að útveguð séu betri lyf fyrir þá sem hafa lifrarbólgu C þá segi ég: Já, ég vil endilega að við fáum sem allra best lyf fyrir þá sjúklinga og aðra sjúklinga sem þurfa á dýrum lyfjum að halda, við þurfum að gera við þá sem allra best á sama tíma og við höldum áætlun í ríkisfjármálunum.

Sem betur fer hefur okkur auðnast á undanförnum árum að bæta í framlög til Landspítalans og við höfum getað haldið í við vöxt kostnaðar vegna S-merktra lyfja þrátt fyrir að við höfum haft stóru fjárlagagati að loka. Ætli við séum ekki með á þessu ári rúma 3 milljarða umfram það sem rann til Landspítalans þegar við tókum við árið 2013 og þar eru S-merktu lyfin. Þetta er flókinn málaflokkur. Það er ekki einfalt að taka einstök lyf og segja: Þetta er lyfið sem okkur vantar núna og afgreiða eitt lyf í einu, heldur þarf að hafa sérþekkingu til þess að meta heilt yfir hvar helst brennur í þessum málum. Því miður stöndum við frammi fyrir því sama og aðrar þjóðir: Við getum ekki keypt öll nýjustu, dýrustu lyfin við öllum mögulegum sjúkdómum.