144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

úthlutun makríls.

[15:17]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að makrílfrumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra fari illa í þjóðina. Tæplega 30 þús. manns hafa þegar skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að hann vísi málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Björt framtíð er algjörlega á móti þeirri leið sem hæstv. ráðherra leggur til í frumvarpinu þar sem fáum aðilum er gefinn veiðirétturinn sem þeir geta svo selt daginn eftir á opnum markaði.

Virðulegi forseti. Af hverju í ósköpunum ætti ríkið að gefa frá sér verðmæti á þennan hátt? Það má vel vera að þörf sé á því að færa makrílinn í aflamark og kannski hefði þurft að gera það fyrr, en hvernig hæstv. ráðherra ákveður að gera það er ótrúlegt. Það er eins og stjórnvöld hafi ekkert lært af reynslu síðustu ára. Hver er meginvandi stjórnunar á fiskveiðum á Íslandi? Hann er sá að engin sátt er um greinina. Það er ekki sátt vegna þess að stjórnvöld hafa í gegnum tíðina verið að gefa kvóta á nákvæmlega þennan hátt, kvóta sem er svo hægt að selja daginn eftir og „kassa“ út. Það er ótrúlegt að ríkisstjórnin ætli enn eina ferðina að halda sig við þetta fyrirkomulag. Að sjálfsögðu er fólk brjálað yfir því.

Við í Bjartri framtíð höfum sagt: Látum markaðinn keppa. Látum makrílkvóta á kvótaþing og látum útgerðirnar keppa um heimildirnar á samkeppnisgrundvelli. Þannig fáum við réttasta verðið fyrir aflaheimildirnar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, nú þegar tæplega 30 þús. manns hafa skrifað undir þessa áskorun til forseta Íslands, hvort honum sé ekkert farið að snúast hugur og hvort hann hafi ekki athugað (Forseti hringir.) að skoða markaðslausnir á makrílkvóta þegar hann samdi þetta frumvarp.