144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

úthlutun makríls.

[15:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að Björt framtíð sé á móti því að fara þessa leið. Þá væri í sjálfu sér áhugavert að heyra hvað Björt framtíð mundi vilja gera við álit umboðsmanns Alþingis frá því í fyrra þar sem hann sagði að allt frá árinu 2011 hefði verið skylt að hlutdeildarsetja makríl samkvæmt þeim lögum sem gilda á Íslandi. Samkvæmt þeim lögum hefði ríkisstjórninni verið í lófa lagið að setja reglugerð án aðkomu þingsins og hlutdeildarsetja makrílinn með stuðningi álits umboðsmanns Alþingis. Við töldum að sú leið væri ófær, m.a. vegna margvíslegrar óvissu í kringum makríllinn. Hann er auðvitað nýr stofn hér, hefur ekki verið hlutdeildarsettur, ekki gengið kaupum og sölum. Hann er á mikilli siglingu í gegnum lögsöguna. Verður hann hér í meira magni eða minna? Nú er sjórinn einni gráðu kaldari en í fyrra. Þýðir það að hann kemur ekki í ár? Hvað vill hv. þingmaður bjóða í slíkan kvóta þegar hún hefur ekki hugmynd um hvort makríllinn komi eða fari? Telur hv. þingmaður að það mundi skila miklum arði til þjóðarinnar?

Það hafa útgerðir farið í mál við ríkið á grundvelli þess að ekki var hlutdeildarsett hjá síðustu ríkisstjórn eins og lög gerðu ráð fyrir. Séu menn á þeirri skoðun að það hafi verið og séu svona gríðarleg verðmæti í makrílnum af hverju í ósköpunum — hv. þingmaður getur kannski svarað því þótt hún eða hennar flokkur hafi vissulega ekki setið í ríkisstjórn á þeim tíma — fór ekki þáverandi ríkisstjórn og sótti alla þessa peninga sem þeir segja að séu nú fyrir hendi fyrir þann uppbyggingarfasa sem við þurftum svo virkilega á að halda á árinu 2010 og 2011? Getur hv. þingmaður svarað því? (Forseti hringir.) Vegna þess að (Gripið fram í.) við þurfum að fá svar við því hvort menn ætla að fara að lögum í landinu eða hvort menn ætli að gera bara eitthvað allt annað. Og þá hvað?