144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

úthlutun makríls.

[15:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef heyrt það í þingsal hjá ýmsum hv. þingmönnum að menn telji það sé nú mikilvægt að framkvæmdarvaldið fari eftir þeim álitum sem frá umboðsmanni koma og í þessu tilviki er kannski réttast að spyrja hv. þingmann hvort umboðsmaður eigi ekki að njóta vafans í það minnsta.

Hér var einnig gagnrýnt að ég spurði hv. þingmann spurningar. Það er nefnilega svo auðvelt að vera á móti ef menn stinga ekki upp á neinu öðru. Hér er sagt: Af hverju ekki uppboð? Ég fór mjög vel yfir það í inngangsræðu minni að þær þjóðir sem hafa farið uppboðsleiðina hafa allflestar, ef ekki allar, fallið frá henni m.a. vegna þess hversu alvarleg áhrif það hefur. Það þjappar saman allri útgerð á einn, tvo staði eða þrjá og núverandi ríkisstjórn vill tryggja fjölbreyttan sjávarútveg hringinn í kringum landið. Þess vegna finnst mér það sanngjörn spurning að spyrja þingflokk Bjartrar framtíðar: Eruð þið sem sitjið í þeim (Forseti hringir.) þingflokki, hv. þingmaður, ekki tilbúin að tryggja byggð hér í landinu?