144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um makrílfrumvarpið.

[15:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að hér komi fulltrúar úr minnihlutaflokkunum og ekki síst þeir sem sátu í síðustu ríkisstjórn og forðist eins og mögulegt er að ræða það að umboðsmaður Alþingis hafi gefið álit sitt á stjórnsýslu þeirra á síðasta kjörtímabili, ég skil það vel. Ég er svolítið undrandi á beiðni hv. þingmanns um að velta því upp hvort hér eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Hann var ekki svo upprifinn yfir því þegar við ræddum hér Icesave. Hann hefur heldur ekki verið svo upprifinn yfir því hvort hlusta eigi á þá og þær 70 þúsund undirskriftir sem segja að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera kyrr þar sem hann er og að ekki eigi að skerða hann á meðan verið er að vinna að einhverjum breytingum inn í framtíðina. Það er merkilegt að menn skuli koma hér upp og forðast að ræða hlutina.

Ef þeir vilja hins vegar ræða hlutina í raunveruleikanum þá er það þannig að við framsóknarmenn aðhyllumst auknar þjóðaratkvæðagreiðslur. Það þarf að smíða það umhverfi, sú vinna stendur yfir núna í stjórnarskrárnefndinni og ég vænti þess að þær niðurstöðu komi fljótlega.