144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

655. mál
[15:54]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágæta umræðu og spurningar og byrja á síðustu spurningunni sem þingmaðurinn varpaði fram um ágengar tegundir. Sannarlega er það rétt að við þurfum að fara varlega varðandi slíkt. Vinnu verður haldið áfram í ráðuneytinu, ég get fullvissað hana um það, varðandi lúpínu, kerfil og aðrar slíkar tegundir Ég bendi ykkur á að í Morgunblaðinu í morgun er grein um jólatrén okkar og það kæruleysi sem við sýnum kannski öll með því að láta gömul jólatré velkjast um í garðinum, þess vegna í heilt ár. Það getur haft alvarleg áhrif á lífríkið, við vitum ekki hvað það er. Ég nefni svona einfalt dæmi af því að ég er nýbúin að lesa um það, hv. þingmaður. Það gildir því í þessu eins og öllu öðru að ganga hægt um gleðinnar dyr og ekki síst þegar kemur að náttúrunni.

Í þessari ágætu framkvæmdaáætlun er líka getið um það sem þingmaðurinn var að spekúlera í, hvernig við getum eflt fræðslu. Ég tel að það væri mjög mikils virði ef hægt væri að vinna með skólabörnum, hvað ungur nemur, gamall temur, það er sígilt.

Varðandi friðlýsingar, af því að tíminn er knappur, þá veit ég að við förum í þær síðar á fundinum, við tölum um þær þar. Hvað varðar þurrlendið og kortlagningu þess er það einn liðurinn í framkvæmdaáætluninni og var talið að hægt yrði að ljúka henni. Nú er árið 2015 og ég mun sannarlega afla mér upplýsinga strax á eftir um það hvernig sú vinna stendur.(Forseti hringir.)

Það er rétt sem hv. þm Össur Skarpéðinsson sagði að kortlagning og skapalón eru lykillinn að þessu öllu og með áræðni hans tókst okkur til dæmis að forða vistkerfinu, ísaldarurriðanum, frá glötun.