144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

verkefnisstjórn rammaáætlunar.

656. mál
[15:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra varðandi verkefnisstjórn rammaáætlunar. Þetta stóra og mikla verkefni, rammaáætlun, hefur verið í gangi hér um áratugaskeið og skapar grundvöll fyrir einhvers konar jafnvægi milli nýtingar og verndar náttúrusvæða á Íslandi. Þetta er gríðarlega mikill og erfiður pólitískur vettvangur sem hefur valdið okkur átökum ítrekað, þ.e. það hvernig við viljum ráðstafa náttúrusvæðum á Íslandi og rammaáætlun var hugsuð sem leið til þess að ná utan um þann ágreining, þær deilur.

Á síðasta kjörtímabili lánaðist okkur að setja saman löggjöf í þverpólitískri sátt og auk þess, í samráði við sveitarfélögin, lagaumgjörðina um rammaáætlun, þ.e. hvernig ferillinn ætti að vera. Nú er svo komið að við erum að átta okkur á veikleikum og styrkleikum þessa verkfæris meðan við erum að prufukeyra það, en einn af þeim aðilum sem gegna lykilhlutverki í því að rammaáætlun gangi vel fyrir sig og að ferillinn sem slíkur njóti trausts í samfélaginu er verkefnisstjórn rammaáætlunar.

Verkefnisstjórn hefur það hlutverk samkvæmt lögunum að gera tillögu við ráðherra um endanlega flokkun náttúrusvæða. Endanleg flokkun snýst um það að leggja til hvort svæði eigi að verða nýtt í þágu orkuöflunar eða vernduð frá orkuöflun. Þarna á milli er biðflokkurinn, sem er hugsaður þannig að þar þurfi að afla frekari upplýsinga. Það er gott fyrirkomulag og það er gríðarlega mikilvægt. Það kom ítrekað fram í máli forvera hæstv. ráðherra í embætti eftir ákveðna byrjunarörðugleika í samskiptum við verkefnisstjórnina, að það skipti mjög miklu máli að hún nyti trausts og fengi að rækja sitt starf. Hæstv. núverandi ráðherra hefur fylgt því fordæmi og vísað ítrekað í mikilvægi verkefnisstjórnarinnar og lagt áherslu á þetta hlutverk hennar.

Við erum nú með tillögu hv. atvinnuveganefndar í vinnslu í þinginu, en það er breytingartillaga og viðbót við tillögu hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) sem gengur þvert á tillögu verkefnisstjórnarinnar. Því spyr ég: Hvaða stöðu og hlutverk telur ráðherra verkefnisstjórn rammaáætlunar hafa?