144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

verkefnisstjórn rammaáætlunar.

656. mál
[16:05]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Að því er oft spurt þegar þessi mál ber á góma hér í þingsal: Átti Alþingi þá ekki að hafa neina aðkomu að þingsályktun um niðurröðun verkefna frá verkefnisstjórn og ráðherra? Því er til að svara að mínu mati að leiki vafi á einhverri framkvæmd eigi þingið að grípa inn í þannig að náttúran njóti vafans, þ.e. að sú meginregla náttúru- og umhverfisréttarins sé höfð í heiðri að náttúran njóti vafans.

Hér er hins vegar því miður verið að fara þveröfuga leið af hálfu atvinnuveganefndar þegar lagt er til að kostir sem ekki hafa verið rannsakaðir til fullnustu séu virkjaðir. Ég vil á þeim örfáu sekúndum sem ég hef til þess að ræða þessi mál hvetja hæstv. ráðherra til þess að verða talsmaður þess verkfæris sem felst í lögum um rammaáætlun, vegna þess að það er ekki, eins og dæmin sanna, (Forseti hringir.) að þeim sé fylgt út í hörgul.