144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

stefna í friðlýsingum.

658. mál
[16:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um stefnu í friðlýsingum. Staðan er sú á tíma þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að afar rýr afköst eru, svo ekki sé fastar að orði kveðið, í friðlýsingum.

Ljóst er að Umhverfisstofnun fer með verkefnið, að vinna að undirbúningi í friðlýsingum. Við höfum haft þann háttinn á á Íslandi að til þess að friðlýst sé þarf eiginlega þríhliða samkomulag ríkis, sveitarfélags og landeigenda til að ná landi í niðurstöðunum. En á tíma núverandi ríkisstjórnar hefur til að mynda í þeim flokki eða þeirri tegund friðlýsinga sem snúa að grunni verndarflokks rammaáætlunar, þar hefur ekki ein einasta friðlýsing verið gerð. Verndarflokkur rammaáætlunar, sá sem ákveðinn var hér með atkvæðagreiðslu í þinginu árið 2013, er sem sé ósnertur fram til ársins 2015. Í tvö ár hefur engin friðlýsing farið fram.

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega afar mikilvægt, ef á að gæta að jafnvægi í rammaáætlun, að það sé ekki bara svo að rammaáætlun sé niðurstaða sem búi til einhvers konar hlaðborð fyrir orkufyrirtækin, heldur sé það líka þannig að við tryggjum framgang verndarinnar, því að annars er jafnvægið ekki trúverðugt. Fjármagn til friðlýsinga hefur verið í lágmarki, fjármagn til friðlýsinga á grundvelli verndarflokks rammaáætlunar hefur nánast verið klippt út.

Ég spyr hér um þrenns konar forsendur friðlýsinga. Í fyrsta lagi það sem ég hef þegar nefnt, þ.e. á grunni verndarflokks rammaáætlunar, í öðru lagi á grunni náttúruverndaráætlunar, sem er samkvæmt gildandi náttúruverndarlögum samþykkt fyrir tiltekin tímabil. Þar eru listuð upp þau svæði sem hafa hátt eða mikið verndargildi að mati þeirra sem best þekkja til í samfélaginu. Hvað líður friðlýsingum á grunni náttúruverndaráætlunar? Síðan í þriðja lagi: Hvað líður friðlýsingum að frumkvæði landeigenda og/eða sveitarfélags? Það er líka eitthvað sem við sjáum gerast, að það er frumkvæði landeigenda eða sveitarfélags sem liggur til grundvallar friðlýsingum. Þar er oft öðruvísi rökstuðningur en í hinum tilvikunum. En ég spyr um það til að hafa hér allt undir í spurningu minni til hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) og spyr um stefnu ráðherrans og framtíðarsýn varðandi friðlýsingar.