144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

stefna í friðlýsingum.

658. mál
[16:24]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Forseti. Það eru tvö svæði sem ég vil ræða í þessu samhengi. Það er Tungnaársvæðið, sem er norðan við Torfajökulssvæðið að Fjallabaki, sem var afgreitt í verndarflokk fyrir allnokkru, og Norðlingaalda og svæðin við Þjórsárver, sem er mér mikil ráðgáta að skuli ekki hafa verið farið í gegnum friðlýsingarferli. Þessi tvö svæði eru meðal helstu fjársjóða íslenskrar náttúru. Það er með ólíkindum að við skulum ekki vera búin að afgreiða þessa hluti.

Nú er unnið að því í menntamálaráðuneytinu að sækja um skráningu Torfajökulssvæðisins á heimsminjaskrá UNESCO. Og Tungnaáin liggur bara rétt upp við það svæði. Það er algjörlega kristaltært í mínum huga að sú skráning mun aldrei nást nema búið sé að friðlýsa það svæði sem er í jaðri Torfajökulssvæðisins. Auðvitað verður ríkisstjórnin því að fara að gyrða sig í brók og taka á í þessum málum.