144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

stefna í friðlýsingum.

658. mál
[16:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefur ekki setið lengi í embætti þannig að ekki er við hana að sakast hvernig umhorfs er í málaflokknum. Hins vegar var ræða hæstv. ráðherra ekkert annað en harður áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Það var ekki hægt að draga neina ályktun af ræðunni aðra en þá að það væri bókstaflega ekkert að gerast í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu varðandi friðlýsingar.

Það kemur auðvitað engum á óvart. Við vitum það sem slógumst fyrir því að settur yrði peningur í friðlýsingar að þar var við ramman reip að draga þar sem var ríkisstjórnin. Staðan er einfaldlega þannig að það var ekkert sett í friðlýsingar á þeim svæðum sem sett voru í verndarflokk. Á síðasta kjörtímabili var drjúgur sjóður settur til hliðar einungis til þess. Sömuleiðis var á þeim tíma almenn fjárveiting líka til annarra friðlýsinga.

Friðlýsingar eru mjög mikilvægt tæki til þess að vernda náttúruverðmæti til framtíðar og það er mjög mikilvægt að stöðugt sé unnið að þeim. Það hryggir mig, en kemur ekki allsendis á óvart, að ræða hæstv. ráðherra var í grundvallaratriðum á þann veg að (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin er ekkert að gera í þeim efnum.