144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

stefna í friðlýsingum.

658. mál
[16:30]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Já, við gætum sannarlega talað hér mikið um þessi mál. En varðandi lokaorð hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur þá voru orð mín nú algjörlega slitin úr samhengi.

Mér finnst ekki rétt að friðlýsa svæði ef ég veit ekki á sama tíma hvort ég hafi fjármagn til að vinna að framgangi þess og fjármagn til að geta sett ákveðna landvörslu og vöktun varðandi svæðið, þannig að það skemmist ekki aftur. Þá finnst mér friðlýsing ekki hafa gildi. Því var ég að reyna að koma fram úr mínum munni en hef kannski ekki verið nógu skýr. Þannig vil ég standa að málum að ég viti fyrir fram, þegar ég ákveð eitthvað, að það sé gert með sóma. Þess vegna kannski ræddi ég um að það væri betra að hafa stærri svæði, að friðlýsa ákveðið svæði, myndarlegt, og að maður mundi skaffa til þess fjármagn og vörslu.

Ég er alls ekki sá aðili sem vill standa í ræðustól og fara með falleg orð en ekki framkvæma. Það er algjörlega öfugt við allt mitt eðli, þannig að við skulum bara aðeins bíða og sjá. Ég skal reyna að gyrða mig í brók, eins og hér var sagt, og taka á. Ég er ekki áhugalaus um þetta en mér finnst ekki, svo að ég endurtaki það hér í þriðja sinni, neitt unnið við það að geta barið mér á brjóst yfir því að ég hafi friðlýst einhver 30 svæði ef ekkert stendur á bak við það og ef ekkert er hægt að sinna þeim.