144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[16:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að eiga þennan orðastað um stöðuna á vinnumarkaði í dag sem er vægast orðin dökk. Það er ekki úr vegi að rifja upp stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með aðgerðum sínum hyggst ríkisstjórnin einnig eyða þeirri pólitísku óvissu sem hefur verið of áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum. Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“

Þetta stóð í stjórnarsáttmálanum, en staðan nú er sú að menn ræða hér um að níundi áratugurinn sé kominn aftur með tilheyrandi köldu vori og átökum á vinnumarkaði. Deilurnar eru víðtækar, bæði á almenna markaðnum og hinum opinbera. Verkfall BHM er þegar farið að hafa víðtæk áhrif og yfirlæknir krabbameinsdeildar Landspítalans hefur sagt að ekki sé hægt að halda svona endalaust áfram, þessar verkfallsaðgerðir muni hafa áhrif á sjúklinga og meðferð þeirra. Þar er ríkið beinn aðili en lítið hefur þokast og ekki verið sýnt á nein spil, hvorki hvað varðar kjarabætur né þá óbeinar aðgerðir, til dæmis í málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Verkfallsaðgerðir á almenna markaðnum munu líka geta haft víðtæk áhrif á ferðaþjónustu og fiskútflutning, aðalútflutningsgreinar okkar. Matvælavinnsla, veitingastaðir, fólks- og vöruflutningar, allt getur þetta farið í uppnám. Það vekur óvissu í umræðunni að fulltrúar ríkisstjórnarinnar segja eitt og annað. Upphaflega talaði hæstv. forsætisráðherra fyrir krónutöluhækkunum en fjármálaráðherra fyrir annars konar samningum, þ.e. ekki endilega krónutöluhækkunum til hinna lægstlaunuðu. Hvað finnst hæstv. forsætisráðherra nú? Er hann búinn að skipta um skoðun? Er hann horfinn frá krónutöluhækkunum fyrir hina lægstlaunuðu?

Hæstv. fjármálaráðherra hefur látið hafa það eftir sér að það sé ekki stjórnvalda að leysa úr kjaradeilum á hinum almenna markaði. Hæstv. forsætisráðherra hefur hins vegar sagt að þar geti stjórnvöld komið með ýmis útspil, til dæmis í húsnæðismálum, en þau útspil eru föst í fjármálaráðuneytinu og þangað eru send orkustykki til að reka á eftir vinnu við húsnæðismál.

Hæstv. fjármálaráðherra spilaði því út á baráttudegi verkalýðsins að forgangsverkefnið væri að afnema raforkuskatt á álver og það kemur ofan á allt hitt; lækkun veiðigjalda, afnám auðlegðarskatts, hækkun matarskatts. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er sú forgangsröðun ríkisstjórnarinnar líkleg til að greiða fyrir lausn kjarasamninga? Er ekki staðreyndin sú að allar þessar aðgerðir stjórnvalda eru þeim mun líklegri til að herða hnútinn fremur en hitt því að engin þeirra gagnast hinum lægstlaunuðu? Tugir milljarða hafa með beinum aðgerðum stjórnvalda farið í að ívilna hinum efnameiri frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Það eru allt pólitískar ákvarðanir og þær eru ekki til þess fallnar að skapa gott andrúmsloft á vinnumarkaði.

Og drjúg urðu svo morgunverk hæstv. fjármálaráðherra á baráttudegi verkalýðsins þegar hann notaði tækifærið til að spyrja á hvers kostnað óstöðugleikinn yrði, og vísaði þar með ábyrgðinni á óstöðugleikanum á launþegahreyfinguna í landinu.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um ábyrgðina á óstöðugleikanum. Er óstöðugleikinn kannski á ábyrgð þeirra sem leggja til rýmri bankabónusa á sama tíma og 20% íslensku þjóðarinnar eru undir 300 þús. kr. í dagvinnulaunum? Er hann kannski á ábyrgð þeirra sem hækka sín eigin laun og gefa starfsfólki sínu svo íspinna í bónus?

Skiptir slíkt fordæmi ekki einmitt gríðarlegu máli á slíkum tímum þar sem ástand á vinnumarkaði er eldfimara en verið hefur árum og áratugum saman?

Herra forseti. Ég veit að þjóðin lítur til hæstv. forsætisráðherra og bíður eftir skilaboðum hans inn í þessa deilu. Telur hann að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, lækkun skatta og gjalda á hina efnameiri, hafi verið skynsamleg til að stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði? Hefur hann horfið frá hugmyndum sínum um sérstaka hækkun fyrir hina lægstlaunuðu í samfélaginu? Munum við eiga von á einhverju útspili, til dæmis í skattamálum, til að greiða fyrir lausn mála á hinum almenna vinnumarkaði? Hvernig mun svo samninganefnd ríkisins, sem er beinn aðili, beita sér í deilunni við BHM sem nú hefur staðið í nokkrar vikur þar sem við heyrum líka mismunandi raddir? Hæstv. fjármálaráðherra segir að eðlilegt sé að taka tillit til menntunar í launakjörum, en svo lesum við um það í blöðum að formaður samninganefndar ríkisins segi að áhersla BHM á að meta menntunina sjálfstætt flækist svolítið fyrir okkur.

Herra forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er ætlunin að ríkið skili auðu í þessari deilu þó að yfir standi verkfallsaðgerðir svo umfangsmiklar að jafn miklar höfum við ekki séð áratugum saman sem munu bitna illa bæði á almenningi og atvinnulífinu?