144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[16:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var alveg makalaus ræða hjá forustumanni ríkisstjórnar þar sem við horfum fram á mjög erfiðar deilur á vinnumarkaði og réttmætar kröfur launafólks um hækkun launa, að koma hér og ausa svívirðingum í allar áttir í stað þess að forsætisráðherra þjóðarinnar kæmi með tillögur til lausnar. En engar tillögur komu, (Gripið fram í.) engar. Hæstv. forsætisráðherra nefnir hér ekki einu einasta orði að ríkið er viðsemjandi í deilu sem hefur núna staðið í á fimmtu viku. Það er ekkert að frétta, það kemur ekkert frá hæstv. forsætisráðherra. Hann bendir bara á að einhverjir aðrir úti í bæ eigi að leysa málið. Auðvitað leggur ríkisstjórnin línurnar í svona viðræðum og það er augljóst að línan er sú að það á ekkert að gera, það á bara að bíða eftir einhverju. Og enginn veit hvað það er.

Það vantar algerlega pólitíska forustu í þessu máli, algerlega, eins og í öllu öðru. Það eina sem þessi ríkisstjórn getur gert snöfurmannlega og snögglega er að lækka álögur á þá sem hæstar hafa tekjurnar, lækka veiðigjöld og núna er það hennar helsta verkefni og mikilvægasta mál að afnema orkuskatta á stórfyrirtæki, álfyrirtæki.

Ég mundi vilja heyra hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra tala jafn örugglega fyrir kjarabótum og þeir tala fyrir lækkuðum álögum á þá sem mest hafa. Það væru skilaboð sem eitthvert vit væri í inn í samfélag okkar.

Nýjustu rannsóknir sýna í skýrslum OECD að brauðmolakenningin sem þessi ríkisstjórn virðist trúa mest á virkar ekki (Forseti hringir.) heldur þvert á móti. Það væri lag fyrir okkur Íslendinga að hækka myndarlega lægstu tekjurnar hér í þessu landi og reyna þannig að efla samfélag okkar en ekki með því að fara öfuga leið (Forseti hringir.)