144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[16:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Staðan á vinnumarkaði er ævintýralegt klúður. Hæstv. forsætisráðherra talar hér fjálglega um að stjórnarandstaðan sýni ekki ábyrgð og að ekki sé þess að vænta að hún geti sýnt ábyrgð. Það hefur verið rauður þráður í að minnsta kosti gagnrýni Bjartrar framtíðar á ríkisstjórnina og mjög margra annarra, hef ég heyrt, að ríkisstjórnin hafi verið mjög ábyrgðarlaus í aðdraganda þessarar kjarabaráttu. Fordæmalaust ábyrgðarleysi, mundi ég segja. Hefur ríkisstjórnin eitthvað gert til að koma í veg fyrir að þessi staða myndist á vinnumarkaði? Hefur hún einhvern tímann sýnt á einhver spil? Hefur hún einhvern tímann látið í það skína að eitthvert samráð eigi sér stað á vinnumarkaði? Aðdragandi þjóðarsáttarsamninganna, sem við viljum stundum endurtaka í íslensku samfélagi, var nokkur ár, hann var eitt samfellt samræðuverkefni sem menn þurftu að taka alvarlega og byggja upp traust. Hefur ríkisstjórnin gert eitthvað svoleiðis?

Hvernig var síðasti tekjuöflunarbandormur ríkisstjórnarinnar hér síðast, aðgerðir í ríkisfjármálum? Hann var ein svikamylla gagnvart vinnumarkaðnum. Þar var seilst inn í tryggingagjaldið í fullkomnu samráðsleysi við vinnumarkaðinn og það notað til að fjármagna alls konar önnur verkefni. Og hvernig byggir ríkisstjórnin upp væntingar á vinnumarkaði? Hún lætur það verða sín fyrstu verkefni að létta álögum af þeim atvinnurekstri sem skilar núna myljandi hagnaði. Það er ótrúlegur áfellisdómur, og við í Bjartri framtíð höfum síendurtekið kallað það ábyrgðarleysi, að fara út í ríflega 100 milljarða kr. aðgerð í því skyni að bæta stöðu heimilanna, hún hefur engin áhrif á vinnumarkaði, skiptir engu máli, (Forseti hringir.) fullkomið bruðl og ábyrgðarleysi. Það besta sem ríkisstjórnin mundi gera til að greiða fyrir því að við kæmumst út úr þessu væri auðvitað að víkja.