144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[17:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Þegar rædd er grafalvarleg staða á vinnumarkaði bregðast tveir talsmenn ríkisstjórnarflokkana þannig við að koma hingað í umræðuna og ausa fúkyrðum yfir stjórnarandstöðuna. Annar þeirra gengur svo langt að missa stjórn á skapi sínu í púlti Alþingis. Ég velti fyrir mér: Hvað kemur mönnum eiginlega til að halda að það geti talist eðlilegt að standa svona í samskiptum við annað fólk.

Auðvitað er það útskýringin á því hvernig fyrir okkur er komið og í hvað stefnir á vinnumarkaði þegar samskiptin eru með þessum hætti. Það eru mikil vonbrigði en þetta er að sama skapi orðið nokkuð venjulegur viðburður hér í þinginu, því miður.

Öll mál er auðvitað hægt að leysa ef fólk er tilbúið til þess að tala saman. Það hefur verið vilji af hálfu minni hlutans í þinginu að axla sína ábyrgð og gera það þó að hæstv. forsætisráðherra sé búinn að ákveða það fyrir fram að svo sé ekki. Þegar maður hlustar á ræðu hæstv. forsætisráðherra gerir maður sér grein fyrir því að það fullkomin veruleikafirring í gangi og af minna tilefni hefur verið hrópað hér úr ræðustól til annarra forsætisráðherra og flokka með hærri fylgistölur að þeir eigi að skila lyklunum, það sé kominn tími til þess að skila lyklunum.

Ég vil benda hæstv. forsætisráðherra á þá lausn úr þeim ógöngum sem hann er kominn í hér, einfaldlega að skila lyklunum, vegna þess að það er algjörlega ljóst að ríkisstjórninni er ofviða að leysa það vandamál sem við henni blasir. Hún getur ekki leyst það, hún er stór hluti af vandanum.