144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

vernd afhjúpenda.

380. mál
[17:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég legg hér fram fyrirspurn um vernd afhjúpenda þar sem ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort til standi að leggja fram frumvarp á yfirstandandi þingi um breytingu á stjórnsýslulögum. Frumvarpið var á þingmálaskrá forsætisráðherra á síðasta þingi og miðaði að því að tryggja vernd afhjúpenda í samræmi við ábendingar frá stýrihópi um framkvæmd þingsályktunar um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis sem samþykkt var á Alþingi árið 2010.

Nú bregður svo við að þetta mál er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir þennan vetur. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað valdi því í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra var búinn að kynna drög á vef forsætisráðuneytisins að frumvarpi um breytingu á stjórnsýslulögum. Þar var lagt til að setja ætti mun skýrari reglur þar sem afmarkað yrði nánar inntak þagnarskyldu opinberra starfsmanna og hvaða hagsmuni þagnarskyldunni væri ætlað að tryggja. Í frumvarpsdrögunum voru meðal annars ákvæði þess efnis að í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga væri eingöngu heimilt að ákveða að upplýsingar lytu þagnarskyldu væri það nauðsynlegt til verndar ákveðnum opinberum eða einkahagsmunum, sem átti svo að telja upp með tæmandi hætti í ákvæðinu. Undir þagnarskyldu áttu ekki að falla upplýsingar um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda, sem mundi þýða að ekki væri hægt að refsa þeim sem kæmi á framfæri við þar til bæra aðila upplýsingum um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda. Þar með yrði tryggt að svokallaðir afhjúpendur mundu njóta aukinnar lagalegrar verndar.

Þetta hef ég nú raunar beinlínis eftir hæstv. forsætisráðherra sjálfum, sem svaraði fyrirspurn minni um þetta efni hér fyrir svona rúmu ári. Þá stóð til að leggja frumvarpið fram. Svo varð þó ekki og hefur maður fullan skilning á því að frumvarpsvinna geti dregist. Frumvarpið rataði heldur ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Það kom mér nokkuð á óvart í ljósi þess að unnið hefur verið að þingsályktun sem samþykkt var hér 2010 og ýmsar lagabreytingar gerðar. Ég veit ekki betur en sú vinna standi enn yfir undir forustu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, ég veit ekki betur en sá stýrihópur sé enn þá starfandi. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þetta frumvarp verði lagt fram. Hverju sætir það þá ef svo verður ekki? Hvað varð um frumvarpið frá hæstv. forsætisráðherra sem kynnt var á netinu og við bíðum spennt eftir að sjá?