144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

vernd afhjúpenda.

380. mál
[17:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir á þakkir skildar fyrir að vekja máls á þessu en sömuleiðis vil ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa skýrt það mjög vel af hverju ekki er búið að leggja fram frumvarpið. Ég skildi hann svo að það væri vegna þess að verið væri að taka inn í það ábendingar sem borist hefðu þó að umsagnir hefðu að öðru jöfnu verið ákaflega jákvæðar. Það er þakkarvert að hann hefur lýst því yfir að frumvarpið komi fram á næsta haustþingi.

Hv. þm. Róbert Marshall hefur lagt fram mjög ítarlegt frumvarp um það hvernig á að búa um slík lög. Ég fagna því líka og að minnsta kosti höfum við þá hér valkosti ef frumvarp hæstv. forsætisráðherra gengur ekki nógu langt. En ég vil vekja athygli þingheims á því að við erum hér á eftir að fara að ræða frumvarp um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði. Þar er verið að leggja fram tillögu starfshóps, sem var meðal annars falið að fjalla um hugmyndir að því að setja sérstaka vernd fyrir uppljóstrara í fjármálakerfið. En það kemur í ljós þegar frumvarpið er lesið að það er ekki að finna þar, fallið var frá því, ég vil vekja eftirtekt á því. Það virðist því ekki sem hæstv. ríkisstjórn sé að flýta sér í þessum flokki.