144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

vernd afhjúpenda.

380. mál
[17:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er alveg kominn tími til þess að við minnum okkur á þessa áætlun þar sem hún var samþykkt 2010, það eru komin fimm ár síðan og maður er orðinn heldur óþolinmóður að bíða eftir því að eitthvað haldbært gerist í þessum málaflokki. En ég fagna því þó að til stendur að leggja fram frumvarp af hálfu ríkisstjórnarinnar um þetta efni og eins og hér hefur fram komið hafa Björt framtíð og Píratar þegar lagt fram frumvarp um sama efni. Það er nú í nefnd og verður væntanlega hægt að nota umsagnir um það frumvarp til þess að skerpa á umræðunni núna í haust ef málið verður rætt.

Ég hef því miður ekki meiri tíma til þess að fara efnislega út í efni frumvarpsins en ég gleðst yfir því að það sé eitthvað að gerast í þessum málaflokki því að það er satt best að segja löngu kominn tími til.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.