144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það nær sífellt nýjum hæðum, hrokinn og yfirlætið sem forsætisráðherra þessa lands sýnir okkur, samstarfsfólki sínu. Málið sem hér var rætt var lagt fram 13. nóvember á síðasta ári og nú sá forsætisráðherra ástæðu til þess að mæta í þingsal og ræða það við formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en hann hafði augljóslega ekki tækifæri eða tíma til að ljúka þeirri umræðu vegna þess að hann var hér frammi að fá sér kaffi og köku. Hvert telur hann að hlutverk sitt sé sem ráðherra í ríkisstjórn? Er það ekki að eiga hér samskipti við þingmenn eða er það eitthvað allt annað?

Hér er talað um samskiptaörðugleika, óvirðingu og ýmislegt fleira sem manni dettur í hug. Það er alveg óhætt að segja að hæstv. forsætisráðherra leggur ekkert af mörkum til að liðka fyrir þingstörfum, svo mikið er víst.