144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem vísað er til í greinargerðinni er að þegar ég kom á fót nefnd til að vinna að endurskoðun laga á þessu sviði, í júlí 2014, þá óskaði ég sérstaklega eftir því að nefndin mundi fara yfir nokkra þætti hvað varðaði viðurlög og heimildir fyrir refsingum á þessu sviði, að þörf væri til að yfirfara fjárhæðir stjórnvaldssekta og fésekta, eins og ég hef farið yfir. Ég óskaði líka sérstaklega eftir því að það yrði skoðað með hvaða hætti við á Íslandi ættum mögulega að innleiða reglur um uppljóstrun í löggjöf í tilefni af þeim brotum sem framin eru á þessu sviði. Niðurstaðan er sem sagt sú, ég get ekki breytt því, að nefndin tók þetta til skoðunar og það er greinilegt að mikil gerjun í nágrannaríkjunum um þessi málefni. (Forseti hringir.) Nefndin hvetur sem sagt ráðuneytið til að fylgjast vel með því og við hyggjumst gera það með sérstöku tilliti (Forseti hringir.) til þeirra brota sem er hér um að ræða.