144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægður með að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tekur svo jákvætt í orð hv. þm. Róberts Marshalls. Sannleikurinn er sá að ég tel að þetta frumvarp sé að mörgu leyti mjög gott og hefði betur verið komið fram miklu fyrr og hugsanlega hefðum við getað sparað okkur mikið tjón í kreppunni hefði svo verið, þannig skil ég þetta frumvarp. Höfuðgallinn á því er sá að það vantar þetta um afhjúpanir inn í frumvarpið.

Herra forseti. Það kemur fram í frumvarpinu að menn hafa í reynd ákveðið að fara þá leið að beita stjórnsýsluviðurlögum, sektum fremur en refsingum nema komi til stórra brota og ég er alveg sammála því. Ég tel að það sé rétt.

Hæstv. ráðherra fór vel yfir það, eins og er gert í greinargerðinni, hvaða tölur og sektir menn eru að tala um, 65 millj. kr. í tilviki einstaklings og veltutengdar sektir upp á 10% af veltu síðasta árs í tilviki lögaðila. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig urðu þær tölur til?