144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekkert fjarri hugsun hæstv. ráðherra í þessum efnum. Hann sagði í framsögu sinni að hugsunin á bak við það að veltutengja sektir væri meðal annars að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að ákveða sektir í samræmi við brot. En það er vel hægt að hugsa sér að brot sé svo stórfellt og feli til dæmis í sér svo stórfellda áhættu fyrir kerfið allt að það verðskuldi hærri sekt. Þess vegna er ég að spyrja hvaðan þessi 10% koma. Koma þau kannski frá Evrópusambandinu? Hæstv. ráðherra sagði það ekki í framsögu sinni og ég finn það ekki í greinargerð. Ég velti því fyrir mér.

Í annan stað langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra, kannski tók ég ekki nógu vel eftir, en segjum að Fjármálaeftirlit verði áskynja um brot sem ekki eru orðin stór að vöxtum en fela í sér þróun sem gæti byggt upp mikla og stóra kerfislæga áhættu, getur fjármálaráðuneytið þá ekki reitt upp refsivönd sekta, af því að málið er á byrjunarstigi, frekar en að beita harðvítugum fangelsisrefsingum? Er ekki hægt að beita viðurlögum (Forseti hringir.) sem eru sektir gagnvart stórum áhættubrotum? Verður það endilega að vera refsing eða fangelsisvist?