144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var sem sagt, svo að ég vitni aftur í niðurstöðu rannsóknarnefndar og ég ætla ekki að telja mig þess umkominn að draga hana í efa eða hafa á því aðra skoðun, að Fjármálaeftirlitið hefði átt að beita þeim valdheimildum sem það hafði með markvissari hætti, það hafði þær, þegar það rakst á brot eða undanflæming af hálfu fjármálafyrirtækjanna; það hefði verið tekið of mildilegum höndum á því.

Nú má margt um þetta segja og það er rétt sem hér kom fram hjá hæstv. ráðherra að bankarnir uxu þessu að mörgu leyti yfir höfuð og Fjármálaeftirlitið var óburðugt. Ég þekki líka dæmi þess að menn sendu Fjármálaeftirlitinu hreinlega rangar upplýsingar. Fjármálaeftirlitið var ekki með réttar upplýsingar frá eftirlitsskyldum aðilum bæði á sviði bankaþjónustu og vátryggingastarfsemi. Auðvitað er Fjármálaeftirlitinu vandi á höndum ef það fær ekki réttar upplýsingar.

Ég held að víðari refsirammi og veltutenging viðurlaga sé hjálplegt. Kannski þyrftu hörðustu viðurlögin að vera við brotum á því að skila ekki inn réttum upplýsingum til eftirlitsaðila. Í ljósi reynslunnar er það hvað alvarlegast ef menn fela ástandið, fela t.d. mjög stórar áhættustöður eða reyna að leggja málin þannig fyrir að aðilar sem eru nátengdir séu ótengdir o.s.frv. Auðvitað taka þessi refsiákvæði til þess eins og annarra hluta. Ég held að það sé ekki hvað síst það sem þurfi að tryggja að hægt sé að taka mjög fast á og jafnvel fyrir eitthvað sem mönnum finnst léttvægt og minni háttar (Forseti hringir.) en tengist því að menn hafi ekki refjalaust sett inn réttar upplýsingar, að á því eigi að taka (Forseti hringir.) mjög fast.