144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[19:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi þeirrar umræðu sem við höfum átt hér, eins og hv. þingmaður nefndi, bæði í vetur og löngu þar áður, um þau málefni sem snúa að týndu fé í útlöndum, þá þurfum við einhvern veginn að taka á þessu. Það er eitt af því sem verður að koma til tals í nefndinni, eins og hv. þingmaður nefndi. Ég trúi ekki öðru en að svo verði. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, er búinn að sitja hér og hlusta á umræðuna í allan dag og hefur heyrt, á máli þeirra sem hér hafa talað, að þetta er eitt af því sem fólk setur fyrir sig og ekki að ósekju. Þetta skiptir mjög miklu máli þegar kemur að uppljóstrun um fé sem við höfum haft sterkar grunsemdir um að sé til staðar og höfum fengið staðfestingu á.

Ég hef ekki beinlínis myndað mér skoðun á því hvort við eigum að fara þá leið sem Þjóðverjar hafa gert, þ.e. að ekki þurfi að gefa út kvittun fyrir því sem uppljóstrarinn leggur fram, eða að hann þurfi að hafa réttmætar aðstæður til að láta þær frá sér. Ég hef nú litið þannig á að þegar þú ert að uppljóstra um eitthvað þá ertu með gögn í höndunum sem þér er kannski ekki ætlað að hafa, þess vegna þurfi að tryggja nafnleyndina. Ég held að það sé hluti af því að við þurfum að búa til þessa vernd.

Ég vona svo sannarlega, af því ég tel að það sé eftir svo miklu að slægjast, að við þurfum á því að halda, að stoppað verði í það gat. Og ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að hægt sé að fara einhvers konar millileið áður en lög um uppljóstrara verða að veruleika þá er það í sjálfu sér bara vel.