144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[19:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af þeim umræðum sem urðu áðan milli tveggja hv. þingmanna um uppljóstranir og vernd fyrir þá sem vilja afhjúpa leyndarmál sem tengjast fjármálalegum gerningum var vísað til Svíþjóðar. Það er rétt að fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að nefndin sem vélaði um þetta og átti meðal annars að kanna upptöku slíkra lagaákvæða en hún gerir það að afsökun sinni að verið sé að breyta lögum í Svíþjóð í þessa veru og hún vilji bíða eftir þeirri niðurstöðu. Þá finnst mér nauðsynlegt að það komi algjörlega skýrt fram að í Svíþjóð eru ævagömul lög, ein hin elstu, sem fela í sér vernd fyrir þá sem koma á framfæri upplýsingum, sem er til bóta fyrir heildina en er kannski ekki alltaf löglegt að setja fram. Í krafti þeirra geta sænskir ríkisborgarar í dag komið á framfæri upplýsingum sem varða til dæmis meint lögbrot innan fjármálastofnana án þess að eiga á hættu að verða beittir einhvers konar refsingu, það er beinlínis bannað samkvæmt sænskum lögum gagnvart uppljóstraranum.

Ég ætla hins vegar að segja að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ætti að fara sér hægt í að fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn sé að hafa hér frumkvæði að því að koma í gegn ákvæðum um hert eftirlit. Eina ástæðan fyrir því er reyndar eins og mig minnir að hv. þingmaður hafi lesið upp á bls. 10, þar sem segir skýrt að samkvæmt tilteknum reglum frá 2013 frá Evrópusambandinu sé nauðsynlegt að aðildarríki skuli tryggja að eftirlitsaðilum sé heimilt að veltutengja, en það var einmitt andlag þessara orða hv. þingmanns.

Mig langar að spyrja í framhaldi af orðaskiptum okkar fyrr í dag. Er hv. þingmaður sammála mér um það að kannski (Forseti hringir.) ætti ekki að hafa neitt hámark í lögum sem þessum? Það kom (Forseti hringir.) nefnilega fram þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hvort þetta væri vegna ESB. Hann var nú ekkert viss um það.