144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki bara bjartur og fagur dagur heldur líka mikill hátíðisdagur fyrir okkur í Samfylkingunni. Við fögnum í dag 15 ára afmæli flokksins. Það fer ekki á milli mála á þessum tímamótum, ef maður horfir yfir svið íslenskra þjóðmála, og það stingur í augun hversu erfiðar aðstæður við búum við akkúrat núna, óróa á vinnumarkaði og almennt ósætti við ríkisstjórnarstefnu sem hefur ekki bara grafið undan friði á vinnumarkaði heldur er líka að leggja á ráðin um ójafnari skiptingu þjóðarauðsins en dæmi eru um áður og stefnir að því, til dæmis með frumvarpi um makríl hér á Alþingi, að koma sameiginlegum auðlindum í einkaeign.

Það er brýnasta spurning íslenskra stjórnmála á þessum tímamótum: Hvernig ætlum við að tryggja sambærileg lífskjör í þessu landi og fólki bjóðast í nágrannalöndunum? Við horfum upp á að brottflutningur frá landinu jókst á síðasta ári, það er brýn þörf að snúa vantrausti og vantrú í tiltrú á framtíð okkar hér í landinu. Hvernig ætlum við að hafa sambærileg lífskjör hér og í nágrannalöndunum? Hvernig ætlum við að tryggja velsæld og velferðarþjónustu sem er sambærileg við það sem tíðkast í nágrannalöndunum? Hvernig ætlum við að losa landið úr því andrúmslofti hafta og vonleysis sem við búum við núna?

Þetta eru brýnustu verkefni stjórnmálanna á næstu missirum og munu skipta mjög miklu máli um hvernig okkur tekst til um framtíð þjóðarinnar á næstu árum.