144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Fjölmiðlar hafa á liðnum dögum sagt frá áhugaverðu fjármögnunarverkefni. Kvikmyndahúsið Bíó Paradís hefur efnt til einnar stærstu hópsöfnunar á netinu þar sem stefnt er að því að safna um 4,5 millj. kr. til að bæta aðgengi að sýningarsölum og salernum hússins. Þetta er metnaðarfullt verkefni en ætti um leið að vekja okkur hjá fjárveitingavaldinu til umhugsunar um stöðu aðgengismála í samfélaginu. Aðgengi fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins er mannréttindamál eins og við ættum að vera farin að þekkja, samanber sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við viljum að allir geti notið menningar, heimsótt veitingastaði og verslað í búðum — óháð skerðingum. Við sem löggjafi höfum freistað þess að tryggja þetta aðgengi með byggingarreglugerðum þótt reyndar hafi allt of oft heyrst sú popúlíska krafa að víkja beri frá þeim til að tryggja skammtímasparnað við byggingu á nýju húsnæði.

Byggingarreglugerðirnar ná bara til nýbygginga. Hús eru hins vegar byggð til áratuga. Söfnun Bíós Paradísar varpar ljósi á þann vanda sem eigendur eða rekstraraðilar eldra húsnæðis standa frammi fyrir. Þeim ber engin skylda til að gera húsnæðið aðgengilegt en hafi þeir metnað til að bæta aðgengi er kostnaðurinn alfarið þeirra því að fáir eða engir sjóðir eru til sem hægt er að leita í vegna slíkra samfélagslegra verkefna sem ég vil kalla svo.

Ef við viljum í raun eitt samfélag fyrir alla þyrfti með samstarfi bæði ríkissjóðs og sveitarfélaga að koma slíkum sjóðum á laggirnar.