144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Kjaramál eru í brennidepli þessar vikurnar og hnúturinn sem þarf að leysa er stór. Kröfurnar eru mismunandi eftir þeim mismunandi hópum sem krefjast kjarabóta og allar eru þær mjög skiljanlegar. Að sjálfsögðu þurfa lágmarkslaun eftir fullan vinnudag að vera þannig að hægt sé að lifa á þeim og að sjálfsögðu þarf menntun að vera metin til launa. Annars er enginn hvati fyrir fólk til þess að fjárfesta í menntun sinni með því að skuldsetja sig meðan á henni stendur.

Við ræddum kjaramál við hæstv. forsætisráðherra hér í gær og hann vill varast verðbólgubál. Lítið annað var hægt að fá upp úr honum varðandi þessi mál. Bæði forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins segjast hafa ekki hafa innstæður fyrir launahækkunum á línuna og að þær brenni hvort sem er upp, en er þetta þá bara vandamál launafólks? Endar samræðan þarna? Hafa þessir aðilar engar hugmyndir um leiðir til lausna? Ég hef alla vega ekki heyrt mikið af þeim.

Ég er með eina hugmynd fyrir atvinnurekendur, alveg ókeypis: Farið á undan með góðu fordæmi og stuðlið að stöðugleika með því að sleppa því að borga ykkur arð í kannski þrjú ár. Hann er heilt yfir greiddur í milljarðatali á ári og ef ykkur er alvara um að mikilvægt sé að halda í stöðugleikann skuluð þið sýna það með því að setja það fé sem annars færi í arðgreiðslur inn í fjárfestingar á fyrirtækinu til dæmis. Það er gott fyrir fjárfestana og það er gott fyrir launafólkið.

Svo er önnur hugmynd fyrir ríkisstjórnina: Lækkið tryggingagjaldið, hækkið fæðingarorlofið og lengið það, notið þau tæki og tól sem nóg er af hjá stjórnvöldum til að bæta kerfin hérna svo kjör fólks og lífsgæði batni til langframa. Ef stjórnvöld bæta framkvæmd sína (Forseti hringir.) er meira til skiptanna í buddum launafólks til eigin nota. (Gripið fram í: Hvernig gerum við það?)