144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni ræða stóra málið í dag, sem eru kjaramálin, og vekja sérstaklega athygli á Kastljóssþætti gærkvöldsins. Þar var maður sem heitir Ari Skúlason, sem þekkir málin mjög vel. Ég ætla að fara aðeins yfir hvað Ari Skúlason, sem þekkir málin mjög vel, benti á. Hann vakti athygli á því að ástandið væri algjörlega stjórnlaust á vinnumarkaði og að hann myndi ekki eftir öðru eins ástandi. Hann nefndi að gríðarlegur árangur hefði náðst á síðasta ári, verðbólga væri lág, lánin okkar ekki að hækka og kaupmáttur hefði aukist hjá öllum.

Núna væri staðan sú að stjórnleysi væri mikið, allir vilja fá allt og ef allir fá allt verður hér kollsteypa. Hverjir munu tapa á kollsteypu? Hverjir munu tapa mestu á kollsteypunni? Það eru þeir sem eru með lágu launin og þeir sem eru með hæstu skuldirnar.

Það hefur nefnilega komið fram, algjörlega skýrt, að það er fullkominn misskilningur að þetta snúist eingöngu um að hækka lægstu launin. Það er fullkominn misskilningur. Ég hef gagnrýnt hér hv. stjórnarandstöðu fyrir lýðskrum. Mér finnst að hún hafi frekar bætt í í þessum lið núna en hitt. Ég hef sömuleiðis gagnrýnt marga forustumenn verkalýðshreyfingarinnar fyrir að vera í flokkapólitík í staðinn fyrir að leggja áherslu á það sem skiptir máli.

Ég get ekki annað en hrósað þessum manni, sem var áður í forustu verkalýðshreyfingarinnar, Ara Skúlasyni, fyrir að fara afskaplega faglega yfir þessa hluti og minna okkur á stöðuna. Ég vonast til þess, sama hvar við erum í flokki, þótt við séum ósammála milli hægri og vinstri, að við náum saman um að gera hvað við getum til þess að viðhalda stöðugleikanum, viðhalda lágri verðbólgu og vinna að því að bæta kjör landsmanna.