144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Á Patreksfirði var fyrir ekki svo löngu síðan opnað kaffihús í gamla stúkuhúsinu. Það sem vekur eftirtekt þeirra sem þangað koma er að þrátt fyrir að þarna sé gamalt hús, sem hefur verið gert upp mjög glæsilega, eru aðgengismál fyrir fatlaða til mikillar fyrirmyndar. Það er í raun og veru bara rampur fyrir hjólastól sem liggur að húsinu, engar tröppur eða neitt slíkt. Það er flott að sjá þegar menn hugsa fyrir þessum atriðum.

Við höfum verið að ræða þessi mál í umhverfis- og samgöngunefnd upp á síðkastið og velt fyrir okkur hvort það þurfi að bæta í þegar kemur að eftirliti með aðgengi fyrir fatlaða, í nýbyggingum og í breytingum á húsnæði. Þetta er því miður til vansa á mörgum stöðum og ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur áðan, við þurfum að velta fyrir okkur hvert við erum komin sem þing og hvar okkar fjárveitingar standa til þess málaflokks þegar Bíó Paradís þarf að efna til sérstakrar söfnunar og átaks til að geta lagað þessi mál hjá sér.

Það er ein leið sem ég vil nefna hér í þessum þingsal og hún felst í því að kjósa með veskinu. Við getum sem einstaklingar haft mikil áhrif í þessum efnum, það þarf ekkert endilega að koma til aðgerða hins opinbera ef almenningur tekur það upp hjá sjálfum sér að velta fyrir sér hvernig þessum aðgengismálum er háttað hjá þeim fyrirtækjum sem hann skiptir við og spyrja hvort búið sé að tryggja aðgengi fyrir alla og skipta þá helst við þá sem eru búnir að ganga frá þessum málum. Það er alveg grátlegt að horfa upp á það hversu erfið þessi mál eru enn þá. Það er samfélagið sem fatlar fólk og ef við búum samfélagið þannig til að það sé með jafnt aðgengi fyrir alla, eins og hér hefur verið gert til dæmis í þessum ræðustól, þá hamlar fötlunin ekki.