144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneyti.

736. mál
[14:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt sem fram kom í máli framsögumanns stjórnarmeirihluta flokkanna í þessu máli, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, að þessi skýrsla snúist um álit umboðsmanns. Þessi skýrsla snýst einmitt ekki um það heldur um samtal þingsins við hæstv. fyrrverandi ráðherra um þetta mál. Álit umboðsmanns fjallar um afskipti innanríkisráðherra af sakamálarannsókn sem er allt annað mál. Hins vegar var ítrekað spurt um þetta í þinginu og svör voru misjöfn eins og við vitum öll. Þess vegna er ég sammála því að við eigum að ræða þetta hér nú. Auðvitað endar þetta mál eins og öll önnur.

Ég vil í upphafi máls míns segja líka, svoleiðis að það sé alveg á hreinu, sérstaklega af því að sumir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nefndu að hér væri einhver pólitískur hráskinnaleikur í gangi, að ég mótmæli því. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er falið það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og þar með stjórnsýslunni fyrir hönd Alþingis. Því fylgir að taka fyrir og athuga það sem talið er hafa farið úrskeiðis innan stjórnsýslunnar. Að sinna því hlutverki er ekki pólitík í þeim anda sem oft er talað um þegar fólk segir að eitt og annað sé bara pólitík. Þá er oftast átt við að einhverjir séu að reyna að ná sér niðri á einhverjum öðrum. Það skiptir einmitt meginmáli að þessi nefnd reyni að hefja sig upp fyrir vinnubrögð af því tagi.

Það eru ýmsar hliðar á þessu máli sem við fjöllum um nú. Umboðsmaður tók málið til frumkvæðisathugunar vegna meintra afskipta innanríkisráðherrans fyrrverandi og aðstoðarmanna hans af sakamálarannsókn. Þeirri athugun umboðsmanns lauk í janúar og skilaði hann áliti til Alþingis. Í því áliti komu fram ýmsar athugasemdir við framgöngu hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra og aðstoðarmanna hans og bent var á ýmis atriði í stjórnsýslunni sem betur mættu fara og huga þyrfti að. Til dæmis fékk núverandi innanríkisráðherra mann til að fara yfir það sem sneri að því ráðuneyti og ég man ekki betur en að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að þar þyrfti ekki að breyta sérstaklega verkferlum. Enn er þó alveg óljóst hvernig forsætisráðuneytið ætlar að bregðast við athugasemdum sem varða siðareglur ríkisstjórnar og til dæmis erindisbréf aðstoðarmanna. Þetta eru dæmi sem umboðsmaður Alþingis tók, en við erum ekki að fjalla um það álit hér þó að það sé náttúrlega náskylt mál.

Ég ætla að fjalla um framgöngu hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra gagnvart þinginu og hvernig okkur í þinginu gekk að fá upplýsingar um hvað hefði rauninni gerst í þessu máli. Í mínum huga er reyndar umhugsunarvert að það þurfti, eins og ég segi, sakamálarannsókn til að leiða fram sannleikann í þessu máli. Ég held að það hljóti að vera okkur flestum hér umhugsunarefni, ef ekki öllum. Ég nefndi þetta reyndar við kunnáttumann í þessum efnum og hann svaraði sem svo að kerfið hefði virkað og spurði hvort ég væri ekki ánægð með það. Auðvitað er ég ánægð með að kerfið virkaði, ég hefði þó frekar kosið að þingið hefði fengið skýrari svör og þá hefði kannski mátt komast hjá sumum þeim dramatísku atburðum sem urðu síðar.

Innanríkisráðherra mætti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þann 10. desember 2013. Á þeim fundi kom fram að upplýsingar um hælisleitendur færu víða og af því tilefni óskaði ég eftir sérstakri umræðu um málið í þinginu og spurði hvaða upplýsingum væri almennt safnað þá og hverjir gerðu það. Það var fróðlegt í þessu dæmi að það dróst nokkuð að sú umræða færi fram. Ýmsir voru á því að þingið væri að tefja fyrir því eða eitthvað svoleiðis en ég vil í þessari umræðu segja að það var ekki svo. Málið hafði eðlilegan framgang og kom á dagskrá undir lok janúar. Í þeim umræðum spurði ég ráðherrann hvort hún hefði látið fara fram athugun á því hverjir gætu hafa lekið minnisblaðinu og hvort það hefði komið frá einhverri undirstofnun innanríkisráðuneytisins.

Í svari sínu sagði innanríkisráðherra meðal annars, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi spurði hv. þingmaður hverjir safni eða varðveiti fyrrgreindar upplýsingar. Það gera Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, einstaka embætti lögreglustjóra, félagsþjónustan víða um land, lögmenn hælisleitanda og eftir atvikum sálfræðingar og læknar. Innanríkisráðuneytið fær umrædd gögn en aðeins þegar úrskurðir Útlendingastofnunar eru kærðir til ráðuneytisins, annars ekki.

Hvað varðar hins vegar úrskurði ráðuneytisins sjálfs eru þeir sendir til ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnunar, Rauða krossins sem og lögmanns viðkomandi hælisleitenda. Hvað varðar aðgang að umræddum gögnum hafa starfsmenn framangreindra stofnana aðgang að þeim …“

Virðulegi forseti. Það liggur í hlutarins eðli að svörin vöktu virkilega upp þær spurningar hvort þessi umræddu gögn hefðu þá farið út úr einhverjum af þeim stofnunum sem vitnað var til, en það kom svo sem ekki fram.

Síðan segir ráðherrann í þessu svari sínu:

„Þingmaður spyr einnig um fréttir þess efnis að trúnaðargögn um einstaka hælisleitendur hafi verið afhent úr innanríkisráðuneytinu til óviðkomandi aðila. Til að svara því ítreka ég það sem ég hef áður sagt um þetta mál. Ráðuneytið hefur með margvíslegum hætti kannað hvort trúnaðargögn hafi verið send úr ráðuneytinu til óviðkomandi aðila. Í framhaldi af kvörtun lögmanns hælisleitanda var það gert með samtölum við starfsmenn, skoðun á gagnagrunni ráðuneytisins, samanburði á þeim gögnum sem til eru í ráðuneytinu og um hefur verið fjallað í fjölmiðlum samhliða því sem rekstrarfélag Stjórnarráðsins gerði sjálfstæða athugun á því hvort ætla mætti að tölvutæk trúnaðargögn vegna málsins hefðu farið úr ráðuneytinu.

Niðurstaða þessara athugana er að ekkert í gögnum ráðuneytisins bendi til þess að trúnaðargögn hafi verið send til aðila sem ekki eiga rétt á þeim lögum samkvæmt.“

Virðulegi forseti. Það er sannarlega umhugsunarvert í ljósi sakamálarannsóknarinnar sem síðar fór fram og hófst einhvern tímann um þetta leyti eða skömmu seinna að samantekt sem ráðherrann fyrrverandi kýs að kalla svo, sem var svo gott sem samhljóða minnisblaðinu sem sent var á fjölmiðla, var send ráðherra 19. nóvember 2013. Það kemur fram í sakamálarannsókninni. Þess vegna hlýtur maður að hugsa: Hvernig fór þessi athugun rekstrarfélags Stjórnarráðsins fram? Af því hljótum við að læra að ef slík mál koma upp aftur þarf að fara fram ítarleg rannsókn en ekki kattarþvottur af því tagi sem hér virðist hafa verið.

Í skriflegu svari við fyrirspurn okkar Marðar Árnasonar sem dagsett var í janúar en barst seint og um síðir, þ.e. 13. maí, kom enn einu sinni fram að ekki væri formlegt minnisblað heldur samantekt um mál hælisleitenda í ráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Auðvitað er það ekkert annað en orðhengilsháttur að tala um samantekt en ekki formlegt minnisblað. Slíkur orðhengilsháttur eykur ekki á traust. Um þetta segir í skýrslu okkar minni hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn bendir á að við umfjöllun mála á Alþingi hefur ráðherra frumkvæðisskyldu sem felst í að veita þinginu þær upplýsingar sem ráðherra hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu. Minni hlutinn telur ljóst af dómi Hæstaréttar að ráðherra hafði fengið sent umrætt minnisblað 19. nóvember 2013 og þar með megi ætla að hann hefði haft upplýsingar um að í ráðuneytinu hafði verið útbúið minnisblað vegna fyrirhugaðra mótmæla við ráðuneytið vegna afgreiðslu þess á máli hælisleitanda. Minni hlutinn undirstrikar að þær upplýsingar höfðu verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu þar sem í fyrirspurnum þingmanna fólst sá skilningur að fjölmiðlaumfjöllun byggðist á gögnum frá innanríkisráðuneytinu eða undirstofnunum þess. Fyrirspurnirnar lutu að því hvað ráðherra hefði gert til að kanna hvernig gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitendur hefðu getað farið til fjölmiðla frá ráðuneytinu. Minni hlutinn telur samkvæmt framangreindu að upplýsingagjöf ráðherra um tilurð og tilvist minnisblaðsins hafi verið misvísandi og ekki í samræmi við upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi.“

Virðulegi forseti. Enn verður að telja að innanríkisráðherrann fyrrverandi hafi skautað léttilega yfir atburðarásina þegar hún var spurð í júní 2014 um fréttir af því að lögreglan hefði rökstuddan grun um að starfsmaður innanríkisráðuneytisins hefði látið fjölmiðla hafa hið óformlega minnisblað en þá sagðist hún ekki þekkja rannsóknina og það væri óeðlilegt að hún þekkti einstaka þætti hennar. Í áliti umboðsmanns kemur hins vegar einmitt fram að hún hafi fylgst náið með framgangi rannsóknarinnar.

Þann 6. maí 2014 spurðu tveir hv. þingmenn ráðherrann fyrrverandi um þetta mál, þær Bjarkey Gunnarsdóttir og Birgitta Jónsdóttir. Hluti af svari til þeirrar síðarnefndu var eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég hef upplifað þetta mál, og ætla ekkert að fara yfir það nákvæmlega hér, sem pólitískan spuna að hluta til og sem pólitískt ljótan leik. Ég mun útskýra það síðar.“

Virðulegi forseti. Nú er ég ábyggilega ekki sú eina sem hef velt fyrir mér hvað fyrrverandi hæstv. ráðherra hafi átt við með þessum orðum. Það er einmitt ein af þeim spurningum sem ég hefði gjarnan viljað spyrja hv. þingmann ef hún hefði orðið við beiðni okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um að mæta til fundar við nefndina eftir að umboðsmaður Alþingis skilaði áliti sínu. En hún gerði það ekki og hlýt ég því að spyrja nú.

Hv. þingmaður hefur mætt í viðtal eftir að hún settist aftur á þing þar sem hún útskýrði afstöðu sína til málsins og taldi meðal annars að það hefði verið taktískt af sér að segja sig frá ráðherraembættinu þegar rannsókn á embætti hennar hófst. Í mínum huga hefur þetta aldrei snúist um taktík eða verið það sem kallað er pólitískt mál, málið snerist um að alvarlegt trúnaðarbrot átti sér stað þegar persónuupplýsingum var lekið til fjölmiðla úr innanríkisráðuneytinu. Það var brotinn trúnaður eins og maður hefur verið dæmdur fyrir, þ.e. að leka trúnaðarupplýsingum. Eftirleikurinn var síðan að komast að sannleikanum um hvað hefði gerst. En það tók á sig ýmsar myndir þar sem menn komu ekki hreint til dyranna heldur létu þvert á móti að því liggja að þeir sem spyrðust fyrir um málið gengju annarlegra erinda. Mér finnst hv. þingmaður skulda okkur hér að útskýra eins og hún kvaðst reyndar mundu gera: Hvað átti hún við þegar hún talaði um ljótan pólitískan leik?