144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneyti.

736. mál
[14:48]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Hér hefur nokkuð verið rætt um hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég verð að segja að mér finnst mjög mikilvægt að hún taki þetta mál og klári það eins og við erum að gera hér, þ.e. þessa þinglegu meðferð. Nefndinni ber beinlínis að hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra og verklag þeirra. Það má vel vera að eitthvað hafi verið gert á síðasta kjörtímabili sem nefndin hefði átt að skoða, það breytir í sjálfu sér engu fyrir mig varðandi þetta mál, annaðhvort hefur nefndin þetta hlutverk eða ekki. Við getum ekki farið aftur í tíma, við verðum bara að horfa fram á við.

Það þarf ekkert að rekja þetta mál, það hefur svo sem verið gert hér, þetta er sorgarsaga og alvarlegt mál að mörgu leyti. Fyrir það fyrsta er leki á trúnaðarupplýsingum úr stjórnsýslunni, viðkvæmum persónuupplýsingum er lekið. Það er ástæða til að taka það mjög alvarlega og það var gert.

Mér finnst þetta mál líka ótrúlegt dæmi um sóun á tíma og peningum og væri fróðlegt að vita hvað það hefur kostað í beinhörðum peningum ef við tökum inn í biðlaun, lögreglurannsókn rekstrarfélagsins, vinnu umboðsmanns við málið, alla vinnu, tíma, orku sem hefur farið í það hjá starfsmönnum ráðuneytisins líka sem hefur verið eytt í vitleysu þá mánuði sem málið stóð yfir, eins jafnvel líka einhver kostnaður vegna almannatengsla og annars sem skattgreiðendur sjá um að greiða.

Við erum líka að tala um ráðherra sem sýnir dómgreindarleysi. Kannski má segja að það að ráða aðstoðarmann sem reynist innilega ekki starfi sínu vaxinn sé ekki gott, en það er kannski ekki hægt alveg að koma í veg fyrir slíkt. Það er óheppilegt en það sem er verra er að þegar svona mál kemur upp er mjög mikilvægt að ráðherra stígi til hliðar og skapi frið um embættið. Fyrrverandi hæstv. ráðherra hefur viðurkennt að það hefði hún átt að gera.

Það er líka alvarlegt að þegar ráðherra bregst trausti setur stjórnmálin niður. Það er vont fyrir stjórnmálin. Það er alls ekki til í mér að hlakka yfir óförum félaga minna hér í öðrum stjórnmálaflokkum vegna þess að það skiptir máli fyrir okkur öll að við stöndum okkur vel og við eigum að vera sem minnst í fjölmiðlum vegna þess að það þýðir að við séum að gera eitthvað rétt. Mér finnst þetta því líka vont fyrir stjórnmálin.

Annað merkilegt er að pólitíkin þvælist mjög mikið fyrir okkur í þessu máli sem kemur í ljós alltaf þegar talað er um að fólk sé í liði.

Alþingi á að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Ég hef aldrei skilið af hverju meiri hlutinn á ekki líka að vera í því hlutverki að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, alveg sama þótt ráðherrar, framkvæmdarvaldið, tilheyri sömu flokkum. Af því að menn eru alltaf að tala um síðasta kjörtímabil skulum við tala aðeins um síðasta kjörtímabil og prófa að snúa dæminu við. Ef ráðherra Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar hefði lent í nákvæmlega sama máli, af hverju hef ég á tilfinningunni að fólk sem vill hér helst ekki ræða þetta mál, segir að því sé lokið, væri sótrautt í ræðustól Alþingis? Þá mundi þetta horfa allt öðruvísi við. Svona er þetta. Fólk sér í gegnum þetta og þetta er ótrúverðugt. En þannig er það. Ég held að við bætum ekki stjórnmálin fyrr en við verðum hreinskilin hvað þetta varðar. Ég ætla rétt að vona að ef ráðherra Bjartrar framtíðar mundi haga sér svona og ég væri stjórnarþingmaður mundi ég ekki sitja þegjandi undir því. Ef ég gerði það ætti ég að hætta í stjórnmálum.

Það er líka talað um að málinu sé lokið vegna þess að ráðherra sagði af sér. Mér finnst mjög leiðinlegt að ráðherra, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, hafi endað sinn ráðherraferil svona vegna þess að ég hafði og hef að mörgu leyti álit á Hönnu Birnu. Ég veit að hún hefur gert margt gott í stjórnmálum. Mér fannst þetta sorglegt, en það eru kjósendur sem dæma um framhald hv. þingmanns í stjórnmálunum. Ég get hins vegar ekki séð að það sé hægt að segja að málinu sé lokið af því að ráðherra segir af sér eins og það sé einhver allsherjarsyndaaflausn. Það er auðvitað ekki þannig. Ráðherra getur sagt af sér vegna þess að viðkomandi ráðherra nýtur ekki lengur trausts sinna flokksmanna eða embættið er rúið trausti og það þarf að breyta því.

Eins er með álit umboðsmanns Alþingis. Ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vill ræða málið áfram gerir hún það alveg óháð því að umboðsmaður hafi skilað sínu áliti. Það er ekkert endilega einhver lokapunktur. Ég mundi segja að þessi umræða hér væri lokapunktur á þinglegri meðferð þessa máls.

Ef maður reynir að sjá eitthvað jákvætt við málið er það það að lögreglan rannsakaði glæpinn og upplýsti hann, dómstólar dæmdu, umboðsmaður skoðaði málið að eigin frumkvæði og rökstuddi álit sitt vel. Stofnanirnar stóðu sig vel. Ég hef reyndar aldrei skilið úttekt rekstrarfélags Stjórnarráðsins. Það hlýtur að vera eitthvað sem þarf að skoða nánar. Eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á er eiginlega verra að vera með einhvern kattarþvott. Þá hefði verið betra að sleppa því bara að fara í rannsókn.

Ekki má gleyma þætti blaðamanna sem upplýstu um málsatvik sem við í þinginu náðum ekki fram og höfðum ekkert aðgengi að. Þeir stóðu vaktina. Maður gæti næstum því haldið því fram að traust okkar til mikilvægra stofnana hefði aukist en því miður hefði traust á stjórnmálin að sama skapi minnkað.