144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneyti.

736. mál
[14:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er að mínu mati og væntanlega fleiri hér inni eitt óþægilegasta málið sem við höfum rætt á Alþingi. Eitt af því allra leiðinlegasta sem ég veit um, bæði í mínu eigin fari og annarra, er tilhneiging okkar mannfólks til að dæma hvert annað. Mig langar ekki að dæma nokkurn mann og mér leiðist þegar fólk dæmir hvert annað. En þegar kemur að málum sem þessum er grundvallaratriði að við lærum af fortíðinni, lærum af þeim mistökum sem við höfum gert. Ég geri mistök. Við gerum öll mistök, alls konar mistök, fagleg mistök, pólitísk mistök, persónuleg mistök. Ég reyni hins vegar að sjá þegar ég geri þau og ég geri mitt besta til að bæta úr þeim og auðvitað viðurkenna þau fyrir sjálfum mér og öðrum, fyrst auðvitað sjálfum sér, annars kemst maður ekkert áfram. Það er þannig. Við getum ekki lært af þessari reynslu ef við viðurkennum ekki afneitunina og meðvirknina sem við höfum orðið vitni að síðan þetta lekamál kom upp þann 20. nóvember 2013.

Ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar og þáverandi hæstvirts ráðherra létu allan tímann eins og þetta væri einhver tilbúningur fjölmiðla og hunsuðu þær staðreyndir sem komu fram aftur og aftur — við hvert fótmál. Ekkert af því sem ég hef notað til að mynda mér skoðun á þessu máli kemur frá fjölmiðlum annað en lekinn sjálfur, þ.e. fréttaumfjöllunin 20. nóvember 2013. Við hvert fótmál hef ég reynt að túlka staðreyndirnar hæstv. þáverandi ráðherra í vil. Við hvert fótmál hef ég gert ráð fyrir því að fjölmiðlar séu að æsa fólk upp, byggja á ósannindum sem geta orðið til við alls konar tækifæri. Eins og ég sagði áður eru mistök mannleg, en hér voru gerð mjög alvarleg mistök við hvert einasta fótmál. Það var ekki bara afneitunin á lekanum sjálfum og það var ekki bara hin svokallaða innri athugun sem eftir á lítur ekki út sem neitt annað en hvítþvottur. Við verðum að horfast í augu við það. Það lýtur ekki bara að ósamræmi dómskjala við fullyrðingar þáverandi hæstv. ráðherra og þessa innri athugun sem ég fer vonandi meira út í síðar ef tíminn leyfir, það eru samskiptin við lögreglustjórann og síðan auðvitað viðbrögðin eftir á við öllu saman. Það var alltaf gert lítið úr því, alltaf eins lítið og mögulegt var. Ég legg til að það séu mistök ofan á mistökin öll.

Nú er rétt að geta þess að álit umboðsmanns Alþingis varðaði ekki lekamálið svokallaða í heild, það varðaði eingöngu samskipti hæstv. ráðherra við lögreglustjórann, Stefán Eiríksson. Það er meira í lekamálinu til að læra af en bara það. Ef það væri eini lærdómurinn birti minni hlutinn kannski ekki 24 blaðsíðna skýrslu, eða 166 með fylgiskjölum, borið saman við þessar þrjár setningar frá hv. meiri hluta. Við verðum að spyrja okkur: Hvað höfum við lært?

Ég vona að við lærum eitthvað af þessu, en ég óttast að það eina sem við höfum lært sé að þegar hæstv. ráðherra segir engin sambærileg gögn meini hann næstum því nákvæmlega sömu gögn, að þegar ráðherra segir að umrædd gögn hafi hvorki verið unnin með vitund né að ósk ráðherra eða skrifstofu ráðherra meini hann að gögnin hafi borist með tölvupósti til ráðherra, aðstoðarmanna og skrifstofustjóra, daginn fyrir lekann. Það er svona ósamræmi sem við erum að ræða og það er ekki hægt að líta fram hjá því, sama hversu mikið maður reynir.

Ég skora á hæstv. fyrrverandi ráðherra og alla stuðningsmenn hans að setja sig í spor mín. Hvað á ég að halda? Hvað á mér að finnast? Hvernig á ég að túlka þessi gögn hvað best ég get í vil hæstvirtum fyrrverandi innanríkisráðherra og í vil þeim aðilum sem að þessu máli koma? Ég reyni eins og ég get en ósamræmið stingur í augun. Það er algjörlega óumflýjanlegt. Það er ekki hægt að afneita því nema með því að grafa undan trúverðugleika og auka á þá tortryggni sem allt þetta mál hefur þegar valdið.

Sömuleiðis óttast ég að við höfum lært að þegar innri athugun á sér stað hjá ráðuneyti taki hún ekki til innihalds tölvupósta eða opinna bréfa ráðuneytisins. Eins og kemur fram í dómskjölum var minnisblaðið, þessi gögn sem síðar komu í ljós að voru ekki bara mjög sambærileg heldur næstum því nákvæmlega sömu gögn og birtust í frétt mbl.is þann 20. nóvember 2013, sent af skrifstofustjóra innanríkisráðuneytisins með tölvupósti til ráðuneytisstjóra, ráðherra og tveggja aðstoðarmanna ráðherra klukkan 17.17 hinn 19. nóvember 2013. Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2014.

Sömuleiðis kom fram 2. maí 2013 í dómi Hæstaréttar að minnisblaðið hefði verið vistað um kl. 17 þriðjudaginn 19. nóvember 2013 á opnu drifi ráðuneytisins þannig að sérhver starfsmaður hefði getað nálgast það en fréttir byggðar á því hefðu birst í fjölmiðlum daginn eftir. Þetta er Hæstiréttur, virðulegi forseti, þetta er ekki fjölmiðill sem ég hef eftir.

Einhverjum mánuðum síðar, eftir innri athugun, fundust engin sambærileg gögn hjá ráðuneytinu. Hvernig eigum við að trúa þessu, virðulegi forseti? Hvað eigum við að læra af þessu annað en að vantreysta og tortryggja kerfi sem við þurfum að geta treyst?

Það er ekki til bóta hvernig meiri hluti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur tekið á málinu, ég ætla aðeins út í það síðar, því að það heldur áfram sem við eigum víst að hafa lært eða ég vona að við þurfum ekki að læra þegar fram líða stundir, t.d. að þegar ráðherra segist ekkert vita um rannsóknina og í þokkabót að það væri mjög óeðlilegt ef hann vissi eitthvað mikið um rannsóknina, sem við skulum taka trúanlegt, eigi hann í raun við að hann stundi bein samskipti við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Hvort sem það er til að hjálpa til við rannsóknina eða ekki eru það afskipti. Við vitum eins og kom í ljós að það var þekking á málinu. Eigum við að læra að þegar ráðherra segist aðstoða lögreglu við rannsókn meini hann kvartanir yfir umfangi rannsóknarinnar og yfirlýsingar um að rannsaka þurfi rannsóknina? Eru þetta lexíurnar sem við eigum að þurfa að fara með inn í framtíðina? Eigum við að hafa lært það eitt af þessu máli að treysta hvorki né trúa? Ég óttast að svo sé.

Aftur leiðist mér ofboðslega mikið að tala um fólk af tortryggni en það eru lausir endar í málinu. Þáverandi háttvirtur lögreglustjóri á Suðurnesjum, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lét upplýsingar í hendur Gísla Freys Valdórssonar og burt séð frá þeim skýringum sem sá háttvirti lögreglustjóri hefur gefið gerðist það líka að fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra skipaði þennan lögreglustjóra sem lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu án auglýsingar sem vissulega er lagaheimild fyrir og allt í góðu með það, lagalega séð — en það vekur tortryggni. Sú afneitun sem heldur áfram hvað þann þátt málsins varðar veldur áfram tortryggni og mun halda áfram að valda tortryggni þar til við horfumst í augu við hvað það er sem hefur gerst á þessu ári sem þetta svokallaða lekamál átti sér stað.

Allt sem snertir þetta mál er orðið tortryggilegt vegna þess eins hvernig viðbrögðin hafa verið af hálfu fyrrverandi hæstv. ráðherra, hæstv. ríkisstjórnar og nú hv. meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Þrjár setningar voru nóg til að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segði allt sem sá meiri hluti vildi segja, í reynd eins og hv. 2. þm. Reykv. s. sagði áðan, með leyfi forseta:

„Málinu er lokið.“

Nei, virðulegi forseti, málinu er ekki lokið. Ég óttast að því ljúki aldrei. Ég óttast að þetta mál verði laus endi það sem eftir er af stjórnmálasögunni. Enn einn, af nógu er að taka, því miður.

Sömuleiðis velti ég fyrir mér þegar hv. 5. þm. Reykv. n. segir í pontu að hann líti ekki svo á að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að setja sig í hlutverk dómara heldur ætti hún að stofna til einhverrar rannsóknar eða einhvers slíks. Gott og vel, virðulegi forseti, gerum það þá frekar en að afgreiða málið með þremur setningum þar sem við segjum einfaldlega: Málið er búið. Sýningin er búin, förum öll heim. Það gengur ekki, virðulegi forseti. Það er með þetta háa Alþingi eins og allt sem virðist snerta þetta mál, það vekur tortryggni. Við megum ekki við öllu meira af henni.

Þetta mál er í skásta falli fullkomið klúður frá upphafi til enda, í versta falli einhver orð sem ég ætla ekki að láta falla í pontunni að svo stöddu. Við hvert fótmál voru gerð mistök, við hvert fótmál grafið undan trúverðugleika þess kerfis sem við stólum öll á að geta treyst, við hvert fótmál meðvirkni og afneitun.