144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hafði þá trú að ég væri síðar á mælendaskrá í þessu máli en hlé var gert á umræðu í gær og ákveðið að halda henni áfram í dag. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði. Það er mjög brýnt að taka þetta mál fyrir og af umræðunni að dæma er almenn samstaða um meginþætti frumvarpsins. Það er helst að gagnrýnt sé að ýmsir þættir mættu vera skýrari og að ýmislegt mætti vera í frumvarpinu sem þar er ekki að finna.

Fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í gær að hann tæki undir það meginsjónarmið í frumvarpinu að viðurlög við brotum á fjármálamarkaði eigi að vera sektir, stjórnvaldssektir eða aðrar sektir, og forðast fangelsisdóma eftir því sem unnt væri nema um væri að ræða mjög alvarlega og grófa glæpi. Undir það leyfi ég mér að taka.

Það sem menn hafa einkum staðnæmst við í umræðunni um þetta mál lýtur að því sem á ensku er kallað „whistle blowing“, þ.e. uppljóstrun. Menn hafa vakið athygli á því að ákvæði þar að lútandi hefði þurft að vera að finna í þessu frumvarpi.

Það er rétt sem segir einhvers staðar í greinargerð að uppljóstrun er að verða mál málanna á löggjafarþingum vestan hafs og austan. Ég er til þess að gera nýkominn af þingi Evrópuráðsins í Strassborg, þar sem tekin var fyrir skýrsla um uppljóstrun. Það var hollenskur þingmaður af hægri væng stjórnmálanna sem talaði fyrir henni, en hann hafði staðið fyrir opnum fundum með Edward Snowden í tví- eða þrígang frá Moskvu þar sem rætt var um uppljóstrara og uppljóstrun. Samþykkt var á þingi Evrópuráðsins að halda þessu máli sem rauðum þræði inn í framtíðina og studdi ég það heils hugar, bæði í ræðu og síðan í atkvæðagreiðslu.

Ég átti kost á því að hlýða á fyrirlestur Ralphs Naders í Berkeley í Kaliforníu fyrir tæpu ári síðan. Ralph Nader hefur nokkrum sinnum boðið sig fram sem forsetaefni í Bandaríkjunum en hann gat sér fyrst orðs á sjöunda áratug síðustu aldar sem einn helsti frumkvöðull á sviði neytendamála í Bandaríkjunum. Ég minnist þess hve rækilega og hressilega hann hristi upp í laga- og reglugerðarumhverfinu og í auglýsingaheiminum á þeim tíma. Hann sagði þá, ég minnist þess frá sjöunda áratugnum, að vandinn væri ekki endilega fólginn í auglýsingum sem slíkum, hugsanlega ekki heldur í regluverkinu eða lagaumgjörðinni sem gilti um auglýsingaheiminn, heldur væri vandinn sá að þessum reglum og lögum væri ekki framfylgt, það væri vandinn. Herferð hans gekk út á að taka yfirlýsingar auglýsinga í fjölmiðlum um þvottaefnið sem átti að vera best í heimi, um góða bílinn o.s.frv. og láta á það reyna, láta reyna á sannleiksgildi auglýsingarinnar.

Hvers vegna vek ég máls á Ralph Nader og erindi hans í Berkeley í fyrrasumar sem ég hlýddi á? Vegna þess að hann kom þar sérstaklega að mikilvægi uppljóstrara. Hann sagði: Ef ég ætti að fá samþykkta tillögu sem gengi út á að gera fjármálaheiminn réttlátari og heiðarlegri þá eru ein lög sem ég mundi öðrum fremur samþykkja og það eru lög um uppljóstrara, því að það er eitt, sagði hann, að hafa gott regluverk, það er eitt að hafa góð lög, en síðan er spurningin að fá upplýsingar um það innan úr kerfinu þegar þau lög eða reglur eru brotnar. Hann var reyndar með ýmsar aðrar tillögur. Hann vildi hafa og talaði um það sem hann kallaði borgara í fullu starfi til að veita kerfinu öllu aðhald. Hann sagði: Í Bandaríkjunum — ég man nú ekki hver talan var nákvæmlega — eru sennilega um tvær, þrjár milljónir fuglaskoðara og það þyfti að vera a.m.k. annað eins af samfélagsskoðurum sem fylgdust með regluverkinu, sem veittu stjórnsýslunni aðhald og sem stuðluðu að því að farið væri að lögum og reglum. Þá skipti ekki síst máli að aðhaldið kæmi innan frá, innan úr stjórnsýslunni, innan úr fjármálafyrirtækjunum.

Nú er það ekki svo að nefndin sem smíðaði þetta frumvarp um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði hafi ekki beint sjónum sínum að nákvæmlega því atriði, vegna þess að vísað er til þess í greinargerðinni að skoða þurfi það sérstaklega og að nefndin hafi skoðað sérstaklega hvort setja bæri reglur um uppljóstrun, „whistle blowing“, í löggjöf og í greinargerðinni er síðan vísað í slíka löggjöf erlendis.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Nefndin skoðaði löggjöf um uppljóstrun (e. whistle blowing) í Danmörku, Bretlandi, Liechtenstein og á Möltu. Eftir þá skoðun og með hliðsjón af því að í Noregi og Svíþjóð er nú unnið að lagabreytingum um að taka upp ákvæði tilskipunar 2013/36/ESB um uppljóstrun taldi nefndin að bíða ætti með að leggja til lagabreytingar hér á landi og fylgjast með þróun mála hjá nágrannalöndunum.“

Hæstv. forseti. Ég spyr: Hvers vegna þarf að bíða? Ég vitnaði í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan um þetta málefni og ég heyrði ekki betur en að hann vísaði í löggjöf, m.a. í Svíþjóð og í Bretlandi, sem hefði borið ágætan árangur. Og hann vísaði i tölfræði sem sýndi einmitt fram á það hvernig uppljóstranir væru að færast í vöxt og hefðu verið að færast í vöxt á síðustu árum, tiltekin árin 2013 og 2014, og hvernig uppljóstrararnir styddust eða væru í skjóli laga, sem væru fyrir hendi í þessum ríkjum. Ef ég man rétt er það svo í Svíþjóð að uppljóstrarar í fjármálakerfinu eiga að njóta friðhelgi, ef ég fer rétt með. Hafi þeir áður greint stjórnendum fjármálastofnunarinnar frá því hvers þeir hafi orðið vísari og ekki hafa komið haldbær og málefnaleg rök af hálfu hinna síðarnefndu eru þeir varðir, þ.e. búið er að sýna fram á að það eru málefnaleg rök fyrir uppljóstruninni, þeir hafa gert stjórnendum fjármálastofnunar grein fyrir því sem fram fer og þá eru þeir í skjóli.

Það var líka vísað til þess að í Bretlandi væri ekki aðeins að finna eina heldur margar stofnanir sem frá ýmsum víddum og sjónarhornum tækju á þeim málum. Þess vegna velti ég fyrir mér hvað það er sem veldur því að ekki er hægt að taka ákvæði þessa efnis inn í lögin. Hvað er það sem er svona flókið við að setja ákvæði í lög sem veitir uppljóstrurum í fjármálastofnunum einhverja vörn? Hvað er svona flókið við það?

Ég reyndi eftir megni að fylgjast með umræðunni sem fram fór um frumvarpið í gær þótt ég væri ekki hér í salnum, þökk sé fjarskiptatækninni er hægt að fylgjast með umræðunni annars staðar en í þingsalnum. Ég varð ekki var við að það kæmu fram skýringar eða haldbær rök fyrir því að ekki væri tekið á þeim málum í þessu lagafrumvarpi. Mér þætti gott að fá upplýsingar um það frá formanni efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, sem hefur þetta frumvarp til umfjöllunar, hver hans sýn á þessi mál er. Eins og ég segi er þetta núna mál málanna alls staðar, ekki síst í kjölfar uppljóstrana Edwards Snowdens, þjóðþing bæði vestan hafs og austan liggja yfir þessum málum og setja ekki aðeins eitt ákvæði eða tvö, það er verið að reyna að þétta alla lagasmíðina og allt regluverkið til stuðnings og varnar fólki sem rís upp með almannahag fyrir brjósti til að benda okkur á hvað fer úrskeiðis í fjármálalífinu.

Við erum með í lögum okkar heimildir til að hlera, til að hlera þá sem eru grunaðir um mjög alvarleg brot, alvarleg lögbrot. Það er gríðarlegt inngrip í líf fólks þegar slíkt á sér stað og eðlilegt að yfir slíku sé legið mjög vel og rækilega, þegar reynt er að færa út eða færa til landamærin hvað það snertir. En hér erum við ekki að tala um neitt slíkt. Við erum að tala um að einstaklingar sem starfa í fjármálafyrirtækjum eða í stjórnsýslunni eða annars staðar þar sem reynir á almannahag fái vörn löggjafans, fái settar reglur og lög sér til varnar ef þeir sjá eitthvað misfarast alvarlegs eðlis og upplýsa almenning og samfélagið um slíkt.

Ég óska eftir því að áður en þessari umræðu ljúki fáum við skýringar á því hvernig á því stendur að ekki er að finna í þessu frumvarpi lög eða ákvæði til varnar uppljóstrurum.