144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé mikilvægt að við hv. þingmaður séum sammála um nauðsyn þess að skjóta inn í þetta frumvarp ákvæði um uppljóstrara. Það var hins vegar misskilningur hjá honum að ég teldi að það væri einhver skylda af hálfu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar að upplýsa eða skýra hvers vegna slíkt ákvæði vantaði inn í lögin. Ég tók það skýrt fram að það er hæstv. fjármálaráðherra að sinna þeirri upplýsingaskyldu.

Nú er það svo, eins og við vitum, að 1. umr. er fyrst og fremst skýringar- og rannsóknarumræða þar sem menn fara yfir frumvörp og þingmál sem eru lögð fram og það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að áður en rannsókn máls er lokið í nefnd komi þingmenn og hafi skýra afstöðu til einstakra mála. Hins vegar gat ég þess að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefði alla jafna verið okkur töluvert sammála þegar kemur að því að reisa skorður við hvers kyns háttsemi sem gæti leitt til þess að bankahrunið mundi endurtaka sig einhvern tíma í framtíðinni með svipuðum hætti og gerðist 2008. Við höfum áður séð það, t.d. þegar við höfum rætt um bankabónusa, sem ég og viðmælandi minn, hv. þm. Ögmundur Jónasson, tókum virkan þátt í, að í gegnum þá umræðu, gegnum 1. umr., var hægt að ná samstöðu í þinginu um alla vega lágmarksbreytingar hvað þá varðaði. Og ég teldi að það væri mjög gott ef hægt væri að fá afstöðu formanns nefndarinnar, sem ekki hefur tekið til máls um frumvarpið, til þessa tiltekna máls.

Ég lýsi svo þeirri skoðun minni að ástæðan fyrir því að ekki er að finna ákvæði eða tillögur um friðhelgi, vernd og hvatningu til uppljóstrana í frumvarpinu sé fyrst og fremst sú að ekki hafi verið sammæli í starfshópnum. Ég held að það hafi verið ágreiningur um þetta. Ég spyr hv. þingmann hvort hann haldi að það kynni að tengjast því að þegar verið var að vinna að gerð frumvarpsins var samhliða verið að ræða um kaup á upplýsingum um hugsanleg skattundanskot Íslendinga (Forseti hringir.) í útlöndum, þar sem fyrir lá að líkast til hefðu þær upplýsingar ekki verið fengnar með lögmætum hætti.