144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki til starfs nefndarinnar eða viðhorfa sem þar var að finna, sem vann þetta lagafrumvarp. En hitt er alveg víst að um uppljóstrara og réttaröryggi þeirra er ekki einhugur í samfélaginu, því fer fjarri. Ég var að vísa hér í umræðu sem fram hefði farið á þingi Evrópuráðsins fyrir fáeinum vikum þar sem ég tók þátt. Þar var ágreiningur um málið. Þó að það væri hollenskur hægri maður sem flutti málið þar, voru pólitískir samherjar hans annars staðar frá, í Bretlandi t.d., mjög andvígir þessu frumvarpi. Það er því ekki einhugur um þetta.

Hvort ágreining af þessu tagi hafi verið að finna í nefndinni og hvort hann megi þá hugsanlega rekja til þess sem var að gerast hér varðandi hugsanleg kaup á upplýsingum um skattsvik skal ósagt látið. En við getum látið á það reyna. Ef menn eru sammála um málið, ef menn eru hreinlega sammála um að styrkja réttarstöðu uppljóstrara þá gerum við það. Þá gerum við það hratt og vel í meðferð þingsins.

Varðandi hlutverk formanns efnahags- og viðskiptanefndar þá er enginn ágreiningur milli okkar, mín og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, um það. Það var ég sem hafði mismælt mig þegar ég sagði að kallað hefði verið eftir upplýsingum frá honum, ég leiðrétti það og sagði að það væri fróðlegt að fá afstöðu formannsins til málsins. Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur reynst framsýnn í mörgum efnum.