144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni hvað þetta síðasta atriði snertir. Þó að við séum fyrst og fremst að tala um fjármálafyrirtækin núna og þá hugsanlega vernd uppljóstrara innan fjármálaheimsins, innan fjármálafyrirtækja, þá er þetta nokkuð sem þarf að taka til stjórnsýslunnar almennt þar sem almannahagur er í húfi.

Það er einn þáttur sem mér finnst vert að íhuga í þessu efni. Við erum að tala um vernd og réttinn til verndar þegar einstaklingurinn upplýsir um misferli. Frá þeirri réttarstöðu er stutt yfir í aðra sem er þá skyldan til að upplýsa um misferli, vegna þess að ef þú nýtur verndarinnar þá fer skyldan til að upplýsa um misferli að færast yfir á einstaklinginn. Kannski er það þetta sem þarf að gerast, að við vekjum samfélagið, að við vekjum fjármálastofnanirnar og alla þá einstaklinga sem þar eru að störfum til vitundar, ekki bara um rétt sinn heldur einnig skyldu sína.