144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að við þessa umræðu hafa þingmenn úr minni hlutanum verið en hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir málinu og svaraði andsvörum. Hann lýsti ekki yfir beinni andstöðu við vernd við uppljóstrara en benti á að það væri verið að bíða frekari vinnu Evrópusambandsins.

Ég hefði viljað heyra í einhverjum fulltrúa meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd í umræðu um þetta mál, um einmitt þetta atriði. Það hefði verið heppilegt að sú afstaða kæmi fram. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði til þess að formaður efnahags- og viðskiptanefndar væri gjarnan á sama máli og minni hlutinn þegar kæmi að lögum um fjármálamarkað. Ég vona því að það verði skilningur á þessu í nefndinni. Það er náttúrlega eðlilegt að byrja á því að nefndarmenn sem unnu vinnuna sem frumvarpið grundvallast á komi fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og þar verði farið yfir það hvernig þeir hafi tekið á þessu máli því að það var eitt af verkefnum nefndarinnar að skoða þetta sérstaklega.

Það þarf að gera þetta vel úr garði því að löggjöfin þarf að vera þannig að hún nýtist þeim sem í hlut eiga, annars getum við sett einstaklinga í afskaplega alvarlega stöðu. Ég skal ekki segja að það sé ekkert mál að gera þetta, en við eigum ekki að opna fyrir pólitíska meðferð á eignarhaldi eða bein pólitísk ítök (Forseti hringir.) og vernda ekki þá sem starfa innan kerfisins.