144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta frumvarp snýr að því að samræma og skýra viðurlög við brotum. Nefna má að hámarksfjárhæðir stjórnvaldssekta verða hækkaðar og við bætist ákvörðun um stjórnvaldssekt með hliðsjón af fjárhagslegum ávinningi hins brotlega — þeim mun meiri sem fjárhagslegur ávinningur hins brotlega er, þeim mun hærri mega sektirnar vera — og í einhverjum tilfellum getur brotið líka varðað fangelsi allt að sex árum.

Þarna er því verið að herða viðurlög við því að brjóta lögin, refsingarnar við því að brjóta gegn þeim. Það sem vantar aftur á móti — og hæstv. fjármálaráðherra kallaði eftir áliti nefndar sem var að vinna að tillögum í undirbúningi frumvarpsins — er vernd fyrir uppljóstrara, það er það sem vantar. Þetta varðar refsingu við því að hafa brotið af sér, það sem vantar er að vernda þá sem ljóstra upp um brot. Það er ekki fyrr en við höfum það ákvæði að við verðum komin með miklu heilsteyptara kerfi; verðum komin með þannig kerfi að ef menn brjóta af sér sé líklegra að þeim verði refsað samkvæmt þessum lögum. Það er það sem vantar, það er eitt af því sem vantar.

Annað líka: Það er stjórn Fjármálaeftirlitsins sem á að framfylgja þessum lögum og taka ákvörðun um sektir, og þá á ýmsum forsendum eins og segir í frumvarpinu:

„Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal meðal annars tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þar með talið eftirfarandi:

a. alvarleika brots,

b. hvað brotið hefur staðið lengi,

c. ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum,

d. fjárhagsstöðu hins brotlega,

e. ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,

f. hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,

g. hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,

h. samstarfsvilja hins brotlega,

i. fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.“

Þessi atriði eiga öll að hafa áhrif á það hve sektin verður há. Samt sem áður er lágmarkssektin, þegar kemur að einstaklingum, 100 þús. kr., hámarkssektin er eitthvað hækkuð frá því sem áður var og upp í 65 milljónir. Ef um lögaðila er að ræða er lágmarkið 500 þús. kr. og getur síðan verið allt að 10% af heildarveltu síðastliðins rekstrarárs hans eða 10% af heildarveltu síðastliðins rekstrarárs þeirrar samstæðu sem lögaðilinn tilheyrir ef brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu. Það er því stjórn Fjármálaeftirlitsins sem á að meta alla þessa þætti og þetta er lágmarkið sem hún getur miðað við og þetta er hámarkið sem hún getur miðað við varðandi sektir.

Hvað sjáum við þegar kemur að Fjármálaeftirlitinu og sektir varðandi þá sem brjóta þá lagabálka sem það á að hafa eftirlit með? Við sjáum til dæmis með Dróma; þeir störfuðu í mörg ár án þess að hafa starfsleyfi til að sinna hlutverki sínu, að innheimta af ákveðnum hópi fólks. Hvað gerði stjórn Fjármálaeftirlitsins? Það var bara slegið á puttana: Skamm, og nú þurfið þið að greiða upphæð sem nemur kostnaðinum við að hafa umrætt starfsleyfi í þrjú ár. Það var því á engan hátt refsað með sekt fyrir það að hafa í þrjú ár verið að brjóta lög. Þeir þurftu bara að greiða það sem þeir hefðu hvort eð er þurft að greiða fyrir að hafa starfsleyfi. Það er því ákveðin brotalöm í kerfinu eins og það er núna, að láta stjórn Fjármálaeftirlitsins taka þessa ákvörðun. Ég treysti ekki stjórn Fjármálaeftirlitsins til að standa sig þegar kemur að því að framfylgja lögum sem varða fjármálafyrirtæki á Íslandi, að veita þeim aðhald og eftirlit hvað þetta varðar, ég hreinlega treysti þeim ekki til þess að gera það vel. Þetta er því brotalöm sem væri hægt að leiðrétta í meðferð nefndarinnar og þingsins á þessu máli, þ.e. að festa betur í lögin hvernig alvarleiki brotsins hækkar sektargreiðslurnar þannig að sú ákvörðun endi ekki á borði stjórnar Fjármálaeftirlitsins, hvernig alvarleiki brotsins hækkar sektirnar, hvernig fjárhagsleg staða hins brotlega hækkar sektirnar — allir þessir þættir sem nefndir eru í frumvarpinu og ég las upp hér áðan.

Það er eitt sem þingið gæti gert: Varðandi uppljóstrarana — hæstv. fjármálaráðherra segir að hann ætli að bíða, hlusta á þessa nefnd sem hann skipaði, með að setja inn í þennan heildarpakka ákvæði um vernd uppljóstrara vegna þess að verið sé að vinna á þessum forsendum í Svíþjóð og Danmörku frekar en í Noregi. En það eru til alls konar góð og gild uppljóstrunarlög í þessum löndum. Þau eru góð í Bretlandi, sérlega góð í Svíþjóð, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur bent á í ræðu sinni, þannig að það er alveg hægt að fara af stað með einhvers konar byrjun á því að tryggja vernd uppljóstrara. Nú hafa þingflokkar Bjartrar framtíðar og Pírata lagt fram þingsályktunartillögu um uppljóstrara sem hægt væri að samþykkja á þessu þingi ef vilji væri fyrir því. Við gætum farið af krafti í þá vinnu. En það liggja fyrir mjög góð lög í öðrum löndum hvað þetta varðar og við þurfum ekkert endilega að bíða til þess að fara af stað með slíkt starf. Það væri alveg hægt að vinna eitthvað slíkt eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi, þannig að við værum farin af stað með það samhliða þessu, í nefndinni. Mér þykir ólíklegt að það verði gert en það væri hægt ef vilji væri fyrir því.

Við skulum skoða það sem gerist varðandi vernd fyrir uppljóstrara. Munurinn á því annars vegar og vernd fyrir heimildarmenn fjölmiðlamanna hins vegar er sá að heimildarmaður fjölmiðlamanns þarf vernd á þeirri forsendu að ekki sé upplýst hver hann er. Uppljóstrari þarf hins vegar oft að koma upp undir nafni og stundum er auðvelt að komast að því hver hann er, ef hann hefur upplýsingar um lögbrot og opinberar þær, vegna þess að það eru kannski ekki svo margir sem gætu haft umræddar upplýsingar undir höndum. Uppljóstrarar verða því eðli máls samkvæmt að hafa annars konar vernd en heimildarmenn fjölmiðlamanna. Uppljóstrunin getur jafnvel haft áhrif á fjárhagslega stöðu þeirra, að þeir missi starfið o.s.frv. Það kom mjög skýrt fram — á ráðstefnu sem var haldin að frumkvæði einhvers ráðuneytisins, líklega efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, og Samkeppnisstofnunar haustið 2013 — að ef setja á upp gott umhverfi og skapa hvata til þess að menn ljóstri upp um lögbrot og skattsvik og slíkt þarf að huga að fjárhagslegri framtíð þeirra sem þurfa að ljóstra einhverju upp; af því að hún er í húfi, fólk gæti tapað.

Það hefur verið mjög góð umræða um málið hér og um mikilvægi þess að tryggja vernd uppljóstrara þegar kemur að þessu. Þegar öllu er á botninn hvolft, það sem við viljum með því að hafa vernd uppljóstrara hvað þetta varðar og hvað varðar öll önnur brot er það að samhliða — þegar menn vita að líklegra sé að ljóstrað verði upp um brot þeirra þá eru þeir ólíklegri til að fremja brotið til að byrja með — letur það menn til lögbrota, en hvetur jafnframt þá sem vilja stíga fram til þess að gera það með því að veita þeim ýmiss konar vernd til þess. Það er þannig lagaramma sem við viljum skapa.

Ég ætla að fara stuttlega yfir það sem kemur fram um það sem GRECO hefur sagt um þessa hluti almennt. GRECO hefur hvatt ríki sem ekki hafa gert ráðstafanir til að fullgilda samning um að innleiða aðgerðir til verndar starfsmönnum sem koma fram með upplýsingar í góðri trú í þágu almannahagsmuna, meðal annars Ísland. Í svari Íslands kom fram að sent hefur verið út dreifibréf á vegum fjármálaráðuneytisins, í febrúar 2006, þar sem sett eru viðmið fyrir góða starfshætti ríkisstarfsmanna með vísan í 14. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og leiðbeiningar í átta liðum kynntar. Meginþungi leiðbeininganna snýst um skyldur starfsmanna. Í síðasta lið leiðbeininganna segir þó að ríkisstarfsmaður, sem í góðri trú kemur upplýsingum um spillingu, ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi á framfæri með réttmætum hætti, skuli á engan hátt gjalda þess. Í ljósi þeirrar umræðu, um ábyrgð, gagnsæi, upplýsingaleka og spillingu, sem vísað er til hér að framan og nánar er fjallað um í viðauka, telur nefndin — nei, nú er ég kominn eitthvert út á þekju með þetta. Þetta eru punktar sem teknir voru saman en ég veit akkúrat ekkert hvar ég er í þessum punkti þarna.

Punkturinn kristallast þarna: Eins og staðan er núna, og þetta er 2006, þá er þetta ósamstætt þegar kemur að ríkisstarfsmönnum, starfsmönnum hins opinbera. Þeir hafa á engan hátt tilfinningu fyrir þessu út af því að það eru svo margir lagabálkar — þar sem réttur þeirra til að koma fram og veita upplýsingar, eða skylda þeirra til þess að þegja um upplýsingar — þvers og kruss í kerfinu. Það er því mjög mikilvægt fyrir opinbera starfsmenn og þá sem starfa í fyrirtækjum að taka þetta saman í einn heildstæðan lagabálk og það er það sem þingsályktunartillaga Bjartrar framtíðar og Pírata fjallar um.