144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég var búinn að tjá hv. þingmanni þá hef ég beðið lengi eftir að hlusta á þessa ræðu. Ég veit að hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur kynnt sér mjög þau mál sem ég ber helst fyrir brjósti í tengslum við þetta frumvarp en það eru ákvæði sem tengjast vernd uppljóstrara, heimildarmanna, afhjúpenda.

Það sem mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um er með hvaða hætti hann telji að eigi að koma fyrir þessari vernd í réttarreglum okkar. Til þess að ég tali algjörlega skýrt þá er ég að velta fyrir mér hvort það ætti að hafa inni í þessu frumvarpi, sem verður síðar vonandi að lögum, sérstök ákvæði um vernd uppljóstrara eða ætti þetta að vera heildstæður lagabálkur? Mér fannst á máli eins af þeim sem flytur frumvarpið sem hv. þingmaður vísaði til, og það var formaður þingflokks Bjartrar framtíðar, hv. þm. Róbert Marshall, að það ætti hafa einn heildstæðan lagabálk og það væri kannski ekki þörf á því að hafa ákvæði um slíkt í lögum sem varða fjármálastofnanir og fjármálamarkaðinn. Hv. þingmaður hefur eflaust tekið eftir því að það frumvarp sem við ræðum hér varðar breytingar á hvorki né minna en tólf lögum.

Hins vegar gerði hv. þingmaður allra best þeirra sem hér hafa talað greinarmun á mismunandi þörf á vernd fyrir annars vegar þá sem telja sig knúna til þess að koma fram upplýsingum á framfæri í gegnum fjölmiðla og verða að hafa nafnleynd, hins vegar þá sem, innan fyrirtækja sem starfa á einkamarkaði, telja sig til knúna að koma upplýsingum en verða oft eðli máls samkvæmt að birtast. Og þá spyr ég hv. þingmann: Telur hann að það þurfi hugsanlega sérstök ákvæði í lög um fjármálastofnanir um vernd slíkra manna eins og mér virðist að sé í Bretlandi?