144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Að taka saman heildstæðan lagabálk sem tryggir uppljóstrara vernd er að sjálfsögðu gott. Það virðist bara ekki vera á dagskrá hjá stjórnvöldum, þannig að Björt framtíð og Píratar hafa farið af stað með að vinna þá vinnu. Hún mun taka einhvern tíma, aftur á móti liggur þetta frumvarp fyrir núna. Ef við ætlum að fara að nota þessar auknu refsiheimildir til að skapa meiri hvata hjá mönnum til að brjóta ekki af sér og líka, ef menn brjóta samt af sér, þá sé þeim refsað mun meira til þess að brotin endurtaki sig síður, þá er mikilvægt að setja einhvers konar ákvæði um uppljóstrara hér inn, taka það til hliðsjónar núna.

Eins og ég nefndi áðan er ég ekkert viss um að það verði gert. Hæstv. ráðherra er búinn að skapa sér ákveðið skjól fyrir því, sýnist mér, með því að segja: Ég setti þetta nú fyrir nefndina að það ætti að skoða þetta og nefndin sagði þetta. Hann er búinn að úthýsa ábyrgðinni að einhverju leyti ef við tölum bara hreint pólitískt út hvað það varðar.

Nefndin getur samt sem áður gert það og við eigum að halda áfram að tala fyrir því. Það væri gott ef við fyndum einhverja góða lausn til þess að gera það, sem ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um, hann gæti komið með einhverja góða punkta um það, hann þekkir betur ferlið og hvað er mögulegt að gera með löggjöf í vinnslu þingsins. Ef það væri hægt að setja inn einhver ákvæði sem mundu strax fara að vernda uppljóstrara sem uppljóstra um brot á fjármálamarkaði, væri það til hins betra.